Icelandair að greiða úr þeim vanda sem við blasir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég legg áherslu á það í þessu sambandi að það er þeirra sem eiga hagsmuni núna af rekstri félagsins að ná niðurstöðu. Til þess hafa þeir stuðning frá ríkisstjórninni, að ná niðurstöðu, og þá mun ríkið koma til viðræðna um ríkisábyrgð með ákveðnum skilyrðum sem þá þarf að semja um,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um aðgerðir stjórnvalda vegna rekstrarstöðu Icelandair í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. 

Stóra verkefnið að byggja upp nýtt félag ef björgunin mistekst

„Takist stjórnendum félagsins hins vegar ekki að leysa úr fjárhagsvanda félagsins er komin upp önnur staða, þá er komin upp ný staða sem ekki er hægt að úttala sig um á þessari stundu. Ég hef engar áhyggjur af því að til skamms tíma sé ekki hægt að tryggja flugsamgöngur til landsins. Það er hægt að gera eftir margvíslegum leiðum. Stóra verkefnið sem blasir hins vegar við okkur sameiginlega, mistakist þessi tilraun, er að byggja að nýju upp félag sem getur sinnt þessu mikilvæga hlutverki með Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll um Norður-Atlantshafið,“ sagði Bjarni. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna hver áætlun stjórnvalda varðandi erfiða stöðu Icelandair væri. „Hvert er planið ef það verður brestur í framvindunni núna varðandi flugsamgöngur? Hvernig hyggst ríkisstjórnin stíga inn í til að tryggja þessi mikilvægu tengsl okkar Íslendinga við umheiminn?“ spurði Þorgerður. 

Bjarni sagði það vera áætlun ríkisstjórnarinnar að styðja við alþjóðaflugvöll í Keflavík sem sinnir Norður-Atlantshafsflugi eins og Icelandair hafi gert undanfarin ár og áratugi. 

„Í því liggja verðmætin í Icelandair fyrir okkur Íslendinga. Þetta er félagið sem hefur byggt upp leiðakerfi um flugvöllinn í Keflavík, á Norður-Atlantshafsflugleiðinni. Enginn annar hefur boðið sig fram í gegnum tíðina til að reyna að sinna þessu hlutverki og það er ólíklegt, verð ég að segja fyrir mitt leyti, að einhverjir erlendir aðilar myndu reyna að hlaupa í skarðið. Þess vegna hefur ríkisstjórnin nú þegar brugðist við,“ sagði Bjarni og vísaði þar til samnings stjórnvalda við Icelandair um að halda úti lágmarksflugsamgöngum. 

„Nú er það fyrirtækisins, sem er skráð félag á markaði, að vinna úr stöðunni og greiða úr þeim vanda sem við blasir,“ sagði Bjarni. 

Ég held að öllum sé ljóst að ef þær áætlanir sem kynntar hafa verið ganga ekki eftir þá stefnir fyrirtækið í gjaldþrot. Það er bara staðan og það er engin goðgá að komast að þeirri niðurstöðu á þessum tímapunkti vegna þess að það blasir við að fyrirtækið lifir ekki lengi tekjulaust. Það blasir við. Það er hin alvarlega staða og þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að styðja við þessa áætlun með því að segja að gangi áform félagsins eftir munum við styðja við hana með mögulegri ríkisábyrgð.“

mbl.is