Ólíklegt að Gummi Ben bar opni aftur

Gummi Ben bar hefur verið starfræktur þar sem Húrra var …
Gummi Ben bar hefur verið starfræktur þar sem Húrra var áður til húsa. mbl/Golli

Meiri líkur en minni eru á því að Gummi Ben bar við Tryggvagötu verði ekki opnaður á nýjan leik.

Að sögn eigandans Ómars Ingimarssonar verður staðfest á næstu dögum hvað verður um staðinn. „Það er tvennt sem við erum búin að vera að stóla á, íþróttir og hópa, og það hefur hvorugt verið í gangi,“ segir hann og bætir við að svigrúm frá húseiganda sé heldur ekki fyrir hendi vegna stöðunnar sem er uppi vegna kórónuveirunnar. 

Ómar kveðst ætla að tilkynna á Facebook-síðu staðarins hvernig málin þróast.

Gummi Ben bar hefur verið lokaður síðan 16. mars vegna veirunnar og hefur hann því aðeins náð að vera starfræktur í hálft ár. „Það er ekki búið að vera brjálað að gera. Við vorum búin að vera í mikilli markaðsvinnu sem var að byrja að skila sér. Ef þetta hefði ekki gerst hefðum við náð okkar markmiðum,“ bætir Ómar við og á þar við veiruna.

Hann sér einn um rekstur staðarins en Andrés Þór Björnsson hætti afskiptum af honum í byrjun ársins.

mbl.is

Bloggað um fréttina