Brjálaða Bína sérlega frjósöm í ár

Bjarna Grímssyni, bónda á Skeggjastöðum í Mosfellsdal, brá í brún þegar ærin Brjálaða Bína var að bera í lok síðustu viku. Þrjú lömb voru komin og Bjarni var farinn að huga að öðrum verkum þegar hann sá að höfuð þess fjórða var að koma út. „Ég átti alls ekki von á þessu,“ rifjar Bjarni upp enda eru fjórlembur frekar fátíðar.  

Hina fimm ára gömlu Brjáluðu Bínu segir Bjarni vera besta skinn en eigi þó til geðvonsku líkt og hún á kyn til. „Hún hljóp mig niður í réttunum fyrsta árið og fékk þá nafnið Brjálaða Bína,“ segir bóndinn. Faðirinn heitir Vestri og mun vera af miklu frjósemiskyni af bænum Skjaldfönn á Vestfjörðum.

Í myndskeiðinu má sjá Brjáluðu Bínu í stíunni ásamt lömbunum fjórum sem eru þrír hrútar og ein gimbur. Þeim heilsast heilt yfir vel þó að eitt lambið sé aðeins veiklulegra og hefur því fengið pela og auka vítamín.

Að sögn Bjarna er ánægjan yfir búbótinni þó blendin þar sem það getur verið mikil þolraun fyrir á að sinna fjórum lömbum allt sumarið og því kemur til greina að koma einu þeirra undir aðra kind ef tækifæri gefst á því. 

Sauðburðurinn hefur gengið vel á Skeggjastöðum og þarna má sjá …
Sauðburðurinn hefur gengið vel á Skeggjastöðum og þarna má sjá á sem Bjarni bóndi bíður eftir að beri. Ærin Sletta flatmagar þarna og virðir mannfólkið fyrir sér af hóflegri hrifningu. Af stærð vambarinnar að dæma eru þrjú lömb, hið minnsta, á leiðinni þaðan. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert