Fagnaðarefni að Ísland sé orðið grænt aftur

Ísland hækkaði um fjögur sæti á milli ára, en Regnbogakortið …
Ísland hækkaði um fjögur sæti á milli ára, en Regnbogakortið sýnir stöðu Evrópulanda með tilliti til söðu og réttinda hinsegin fólks í hverju landi fyrir sig. Ljósmynd/Brynjar Gauti

„Það er auðvitað fagnaðarefni að Ísland sé loksins orðið grænt aftur,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78, um stöðu Íslands á Regnbogakorti ILSA-Europe fyrir árið 2020.

Ísland hækkaði um fjögur sæti á milli ára, en Regnbogakortið sýnir stöðu Evrópulanda með tilliti til stöðu og réttinda hinsegin fólks í hverju landi fyrir sig. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

Á kortinu eru löndin metin með eftir því hversu mörg skilyrði þau uppfylla og eru löndin sem standa sig hvað verst, svo sem Aserbaídsjan og Rússland, rauð að lit en þau sem standa sig best dökkgræn að lit. Ísland hafði verið gult að lit undanfarin þrjú ár eftir að það féll niður fyrir 50 prósentin, en er loks orðið grænt að nýju og uppfyllir nú 54% skilyrða eftir að lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi.

Margt óunnið

Þorbjörg segir ljóst að enn séu mörg skilyrði sem Ísland eigi eftir að uppfylla. „Manni finnst það skjóta skökku við að land þar sem viðhorfið gagnvart hinsegin fólki er jafn gott og raun ber vitni skuli í raun ekki vera á toppnum á þessu korti, heldur í 14. sæti. Það er alveg hellings óunnið verk.“

Á þessum tímapunkti segir Þorbjörg mikilvægast að klára intersex-löggjöfina til að veita börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni vernd gegn ónauðsynlegum inngripum. 

Kort/ILGA-Europe

„Það er mest áríðandi núna. En svo sést það þegar kortið er skoðað að við erum langt, langt á eftir í öllu sem snertir hinsegin hælisleitendur. Þeirra réttindi eru engan veginn tryggð, en þó uppfylltum við okkar fyrsta skilyrði núna af því fólk í hæliskerfinu getur breytt nafninu sínu og kynskráningu út af lögunum um kynrænt sjálfræði.“

Loks sé mikilvægt að bráðabirgðaákvæðið úr lögunum um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem samþykkt voru árið 2018, um að uppfæra ætti mismununarlöggjöfina almennt, verði uppfyllt sem fyrst.

Jaðarsettari eftir krísur eins og COVID-19

ILGA-Europe hefur gefið út Regnbogakortið í ellefu ár samfleytt og gerðist það fyrst á Regnbogakorti síðasta árs að löndum fór aftur, og hélt sú þróun áfram á Regnbogakorti þessa árs. Þar fór Ungverjalandi mest aftur og féll um átta sæti.

„Þetta er rosalegt áhyggjuefni,“ segir Þorbjörg og minnir á að gögnin sem kortið byggir á séu frá því áður en kórónuveirufaraldurinn braust út. „Og við vitum að þeir hópar sem eru jaðarsettir fyrir eru gjarnan jaðarsettari eftir svona krísur. Það er mjög mikilvægt að við gefum ekkert eftir.“

mbl.is