Íslendingur sendi tæplega 200 í sóttkví

Þó að kórónuveiran hafi verið orðin útbreidd voru samskipti fólks …
Þó að kórónuveiran hafi verið orðin útbreidd voru samskipti fólks enn nokkur í fyrri hluta marsmánaðar á Íslandi. Þegar smit kom upp þurfti því oft að senda tugi eða hundruð manna í sóttkví. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á hápunkti kórónuveirufaraldursins á Íslandi sendi smitaður einstaklingur tæplega 200 manns í sóttkví á einu bretti eftir að hafa rakið ferðir sínar með smitrakningarteyminu. 

Að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, sem er yfir smitrakningarteymi sóttvarnayfirvalda, var umræddur einstaklingur „þokkalega virkur í samfélaginu“: Í skóla, vinnu, félagsstarfi og öðru eins. Þegar smitið var greint þurfti því að hafa samband við ansi marga.

Önnur spurning er síðan hversu marga einstaklingurinn smitaði, en það er oft erfitt að festa fingur á því í félagsskap þar sem nokkrir greinast, þ.e. hver það hafi verið sem kallaði þetta yfir hópinn. 

Ekki óvanalegt á þessum tíma

Á þessum tíma, í mars og apríl, segir Ævar að önnur eins tölfræði hafi ekki verið óvanaleg. Fólk hafði vikurnar á undan verið á hreyfingu og þegar farið var að rifja upp samskiptin, hafi fjöldi fólksins oft slagað upp í annað hundrað eða alla vega skipt tugum.

Að sögn Ævars gætum við fengið aðrar eins tölur aftur ef smitaðir leika lausum hala án samkomu- og fjöldatakmarka á næstunni, en hann telur þó að persónulegar sóttvarnir muni milda það töluvert.

Smitrakning meðal ferðamanna gæti orðið flókin

Allra síðustu vikur hafa flestir sem greinst hafa með COVID-19 þegar verið í sóttkví. Á heildina litið er hlutfallið 60%. Næsta áskorunin að sögn Ævars er að taka við ferðamönnunum, en það á eftir að útfæra hver aðkoma smitrakningarteymisins verður að þeim ráðstöfunum. 

„Það gæti þó orðið öllu flóknara að hafa upp á fólki sem er á faraldsfæti og sömuleiðis að finna úrræði fyrir þau ef smit greinist. Ef fimm manna fjölskylda á er á ferð um hálendið og eitt þeirra greinist, viðkomandi fer í einangrun og hinir í sóttkví, þá þarf að hugsa fyrir lausn þar,“ segir Ævar.

Ferðamönnum verður hleypt inn í landið frá og með miðjum júní, geti þeir sýnt fram á að þeir séu ekki með COVID-19. Það geta þeir gert með sýnatöku hér, og beðið svo á gististaðnum eftir niðurstöðu, eða með framvísun vottorðs frá öðru landi, þar sem fram kemur að viðkomandi sé laus við veiruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina