Hildur Helgadóttir leiðir vinnu við sýnatöku

Sýnataka á ferðamönnum sem koma til landsins á að hefjast …
Sýnataka á ferðamönnum sem koma til landsins á að hefjast ekki síður en 15. júní. Hún fer fram í tvær vikur og svo verður framhald framkvæmdarinnar metið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Hildi Helgudóttur til að leiða vinnu við sýnatöku hjá ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli. Hildur hefur í vetur verið tímabundinn forstöðumaður krabbameinsþjónustu á Landspítala. 

Ásamt Hildi munu í sérstakri stjórn þessa verkefnis eiga sæti fulltrúar sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra, ISAVIA, Landspítala og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. Yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins verður starfsmaður verkefnastjórnarinnar.

Markmiðið er að sýni verði tekin úr öllum komufarþegum í Keflavík sem það kjósa fremur en að fara í sóttkví. Vottorð/rannsóknarniðurstaða frá öðrum löndum geta einnig komið í stað sóttkvíar, að því gefnu að sóttvarnalæknir meti vottorðið fullnægjandi. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar verður einnig að greina hvaða kröfur þarf að gera til slíkra vottorða og hvernig þeim skuli framvísað og þau metin af hérlendum yfirvöldum.

Sýnatakan á að hefjast ekki síður en 15. júní. Hún fer fram í tvær vikur og svo verður framhald framkvæmdarinnar metið. 

Verkefnisstjórnin á einnig að gera tillögur um framkvæmd sýnatöku og greiningar hjá farþegum sem koma til landsins eftir öðrum leiðum en með flugi til Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert