Farþegar eins og sardínur í dós

Hópur íslenskra læknanema flaug frá London til Búdapest með Wizz …
Hópur íslenskra læknanema flaug frá London til Búdapest með Wizz Air. AFP

Hópur íslenskra læknanema í Búdapest segir farir sínar ekki sléttar af viðskiptum við flugfélagið Wizz Air. Engum sóttvarnaráðstöfunum hafi verið fylgt og selt í nær hvert einasta sæti í vélinni.

Alfa Eir Jónsdóttir Axfjörð er einn læknanemanna. Hún kom til Íslands þegar háskólanum í Búdapest var lokað vegna kórónuveirunnar. „Þá var búið að lofa að skólinn yrði ekki opnaður aftur fyrr en í haust en svo var bara ákveðið að gera það samt,“ segir Alfa. Henni var því nauðugur einn kostur að halda aftur til Ungverjalands til að geta tekið prófin.

Alfa Eir Jónsdóttir Axfjörð.
Alfa Eir Jónsdóttir Axfjörð. Ljósmynd/Aðsend

Til að komast frá Íslandi flaug hópurinn fyrst með Icelandair til London og segir Alfa að þar hafi sóttvarnaráðstafanir verið til fyrirmyndar og til að mynda ekki selt í miðjusæti.

Annað var uppi á teningnum í flugi Wizz Air frá London til Búdapest, en Alfa segir að farþegar hafi þar verið eins og sardínur í dós. Hún segir miklar ráðstafanir hafa verið gerðar á flugvöllunum bæði í London og Búdapest. Lögregla hafi passað upp á tveggja metra regluna og hún hafi ítrekað þurft að sýna pappíra frá ungverskum stjórnvöldum um að hún hafi leyfi til að koma inn í landið. Því hafi verið undarlegt að fara í flugvélina og sjá öllum þeim ráðstöfunum varpað fyrir róða.

Svona var umhorfs í sætunum, sem þó áttu að hafa …
Svona var umhorfs í sætunum, sem þó áttu að hafa verið sótthreinsuð fyrir flugið. Ljósmynd/Aðsend

Búið var að gefa út að farþegar skyldu allir vera með grímu, en þegar í vélina var komið var nær enginn farþegi með grímuna á sér. „Ég sat við hliðina á einhverri konu og 9 ára barni. Hún virtist ekkert ætla að setja á sig grímuna fyrr en ég benti henni á það,“ segir Alfa. Konan hafi svo brugðist ókvæða við þegar Alfa benti henni á að barnið hennar þyrfti líka að bera grímu.

„Mér var ekki sama. Ég er með mikinn asma og varð rosalega veik síðasta haust,“ segir Alfa sem undrast að flugfreyjur hafi ekki tekið harðar á að allir væru með grímu. Þá hafi veitingar verið seldar í vélinni allt flugið sem vitanlega varð til þess að fólk þurfti að taka af sér grímuna. „Þetta er bara tveggja tíma flug. Það þarf ekkert að selja veitingar,“ segir Alfa. Hún og fleiri farþegar hafa sent flugfélaginu kvörtun en ekkert svar fengið.

Alfa er nú komin í sóttkví í íbúðinni sinni í Búdapest. Henni er óheimilt að yfirgefa íbúðina nema að fengnu leyfi lögreglunnar, sem kemur tvisvar á dag í heimsókn til að athuga hvort hún sé ekki örugglega heima. Hún viðurkennir að lögregluheimsóknirnar séu dálítið óþægilegar en segist þó hafa einhvern skilning á aðgerðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert