Fyrsta skiptið sem veðrið skiptir ekki öllu máli

Bubbi Morthens var á fullu í garðinum heima hjá sér …
Bubbi Morthens var á fullu í garðinum heima hjá sér þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann boðar nýtt lag, bílatónleika og bullandi gleði á 17. júní. mbl.is/RAX

„Já maður er heldur betur að hoppa út í djúpu laugina og veit ekki neitt,“ segir Bubbi Morthens um bílatónleika sem hann ætlar að halda 17. júní ásamt Hjálmum og tónlistarkonunum GDRN og Bríeti. Hann segir að þetta gætu orðið einu bílatónleikarnir í íslenskri sögu eða þeir fyrstu af mörgum.

Tónleikarnir munu fara fram þjóðhátíðardag Íslendinga 17.júní á Bauhaus-bílaplaninu. Þar verður sett upp stórt svið og LED-skjár en ekkert hljóðkerfi heldur verður hljóðinu útvarpað í bílana á sérstakri tíðni. Þetta verða fyrstu tónleikarnir af þessari tegund hér á landi en eru að danskri fyrirmynd.

Óvenjuleg en frábær leið til að gera eitthvað skemmtilegt saman

„Fólk mætir í bílum, fjölskylda eða vinir eða hvernig sem það er, fyrir framan risastórt svið og LED-skjá en hljóðinu verður streymt beint inn í bílinn. Ef þú ert með ágætiskerfi í bílnum þá ertu bara með geggjað sound,“ útskýrir Bubbi og segir að um tilraun sé að ræða.

Kostirnir við fyrirkomulagið eru að sögn Bubba meðal annars þeir að þetta gefur fólki tækifæri til að koma saman og hlusta á frábæra tónlist þrátt fyrir tveggja metra regluna og samkomubann. Svo verði þetta mögulega í fyrsta skipti sem veðrið á 17. júní skipti ekki öllu máli.

„Þetta er aðallega til að gera eitthvað fallegt á 17. júní fyrst að við getum ekki verið mörg þúsund saman. Þetta er frábær leið til þess að gera eitthvað skemmtilegt og óvenjulegt en að upplifa samveru. Það er hægt að setja rúðuþurrkurnar í gang ef það verður rigning en ef það verður sól þá verður það geggjað, rúðurnar niðri og stemmari,“ segir hann og hlær.

Þess virði að prófa eftir erfiðan vetur

„Mér finnst rosalega forvitnilegt að gera þetta í fyrsta skipti á Íslandi og mér finnst þetta vera tilraunarinnar virði eftir þennan langa og erfiða vetur sem er búinn að liggja á okkur. Að reyna að mynda ákveðinn samhug og stemningu,“ segir Bubbi sem vonar að fjölskyldur komi saman og eigi geggjaða stund á Bauhaus-bílaplaninu þar sem allt verður til alls og útsýnið fallegt.

Eins og gefur að skilja hefur kórónuveirufaraldurinn og allar þær takmarkanir sem fylgja honum farið ansi illa með tónlistarmenn sem reiða sig á tónleikahald til að afla tekna. Nú er hins vegar byrjað að aflétta samkomubanni í skrefum og telur Bubbi að það fari að birta til fljótlega ef okkur tekst að halda faraldrinum niðri.

„Ég hef trú á því að í ágúst eða september verði þetta komið í þannig horf að menn geti haldið tónleika, ef við miðum við hvað við erum passasöm og svo lengi sem það koma ekki upp brjáluð hópsmit,“ segir hann. En þangað til þurfi að aðlaga sig raunveruleikanum og finna nýjar leiðir, bílatónleikarnir séu ein leið.

Nýtt lag á leiðinni

„Þetta er geggjuð leið til þess að vera saman, 17. júní, flott músík, stemmari og allur þessi fjöldi bíla. Þetta er svo forvitnilegt og það verður ótrúlega spennandi að sjá hvort við náum að gera þetta. Það getur vel verið að þetta verði einu bílatónleikarnir í íslenskri sögu eða þá að þetta verði fyrstu bílatónleikarnir og hellingur fylgi í kjölfarið,“ segir Bubbi.

Í lok viðtalsins við mbl.is greindi Bubbi frá því að von væri á nýju lagi með honum og hljómsveitinni Hjálmum. „Við erum að fara taka upp lag til að nota í undirbúningnum þannig að það er nýtt lag væntanlegt frá Hjálmum og mér,“ sagði hann áður en hann hélt áfram að rækta garðinn sinn.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert