Lárus Sigfússon er látinn

Lárus Sigfússon var með ökuréttindi fram undir hundrað ára afmælið …
Lárus Sigfússon var með ökuréttindi fram undir hundrað ára afmælið og eignaðist sinn síðasta bíl árið 2015. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lárus Sigfússon lést þann 13. maí, 105 ára að aldri. Hann var fæddur á Stóru-Hvalsá í Standasýslu 5. febrúar 1915 og var undanfarin ár elstur íslenskra karla og næstelstur Íslendinga.

Þetta kemur fram á Facebook-síðunni Langlífi. Lárus var sonur Sigfúsar Sigfússonar bónda og Kristínar Gróu Guðmundsdóttur.

Hann hóf búskap á Kolbeinsá í Hrútafirði árið 1937, var landpóstur, og flutti síðan til Reykjavíkur árið 1956. Hann starfaði einnig hjá Sambandinu, keyrði leigubíl og varð síðar ráðherrabílstjóri. Hann eignaðist fyrsta bílinn 1933 og þann síðasta 2015 en hann var með ökuréttindi fram undir hundrað ára afmælið.

Varð langalangalangafi

Kona Lárusar var Kristín Hannesdóttir, en hún lést fyrir rúmum ellefu árum. Þau voru gefin saman í Prestbakkakirkju haustið 1939. Börn Lárusar og Kristínar voru sex og eru fjögur þeirra á lífi. Afkomendurnir voru á annað hundrað. Síðustu árin bjó Lárus við Hvassaleiti í Reykjavík með sambýliskonu sinni, Kristínu Gísladóttur.

Lárus varð langalangalangafi sumarið 2019 þegar barnabarnabarnabarn hans eignaðist dóttur en aðeins fjórum sinnum áður var vitað um sex ættliði hér á landi á lífi á sama tíma.

Systkini Lárusar voru tólf og náðu mörg þeirra háum aldri. Lárus og Anna systir hans, sem dó í byrjun þessa árs, urðu samanlagt 206 ára og 202 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert