„Áttum ekki von á þessum áhuga“

Það var þröngt á þingi í pottunum í Laugardalslaug í …
Það var þröngt á þingi í pottunum í Laugardalslaug í gær. mbl.is/Hallur Már

Allar sex sundlaugarnar sem voru opnaðar á miðnætti í Reykjavík í gærkvöldi fylltust skömmu eftir opnun, að sögn Steinþórs Einarssonar, skrifstofustjóra hjá íþrótta- og tómstundaráði borgarinnar. Það var mikil traffík í laugunum til um þrjú í nótt og þá fór að róast. 

„Við áttum ekki von á þessum svakalega áhuga strax á miðnætti,“ sagði Steinþór á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Það voru komnar raðir fyrir utan sundlaugar um mitt kvöld og síðan var uppselt strax skömmu eftir miðnætti í öllum laugunum.“

Steinþórs Einarssonar skrifstofustjóri hjá íþrótta- og tómstundaráði.
Steinþórs Einarssonar skrifstofustjóri hjá íþrótta- og tómstundaráði. Ljósmynd/Lögreglan

Undirbúningur fyrir opnunina fór fram í vikunni og hugsunin var að létta álagið um morguninn, þegar fastagestir færu að mæta í langþráð sund eftir tveggja mánaða lokun. Þetta skilaði sínu og opnunin í morgun var róleg og þægileg. 

Unga fólkið að horfa á símann en ekki merkingar

Sá galli var á gjöf Njarðar að ungmenni, sem voru mikill meirihluti gesta í laugum bæjarins í nótt, voru sýnilega ekki að fylgja tveggja metra reglunni. 

„Lærdómurinn af þessari opnun var að unga fólkið virðir ekki þessa reglu. Það var búið að undirbúa þetta vel og góðar merkingar og við leggjum áherslu á að fólk virði tveggja metra regluna en það er eins og unga fólkið horfi ekki niður á merkingarnar fyrir framan sig heldur er það bara að horfa niður á símann sinn. Það þarf því að höfða betur til þeirra að virða þessi mörk,“ sagði Steinþór. 

Að öðru leyti gott: „Ég er bara ánægður með þetta,“ sagði Steinþór.

Unga fólkið var í meirihluta í gær.
Unga fólkið var í meirihluta í gær. mbl.is/Hallur Már

350 í lauginni en bara sjö saman á æfingu

mbl.is sýndi frá því þegar Laugardalslaug var opnuð eftir miðnætti í gær og á fjórða hundrað manns streymdu inn í laugina. Gleðin var allsráðandi og menn ekki með hugann við tveggja metra millibilsástand, eins og sjá má af myndskeiðinu.

Þórólfur sóttvarnalæknir ítrekaði á upplýsingafundinum að hann teldi það áhyggjuefni ef menn gætu ekki haldið sig áfram við tveggja metra regluna. Hún þyrfti áfram að vera virt þar sem tilefni er til, en hann og Víðir lögðu að lokum meiri áherslu á að henni hefði ekki verið fylgt í röðunum, þar sem talið hefur verið að smithætta sé ekki ýkja mikil í sundlaugum vegna hitans í vatninu.

Opna má sundlaugarnar miðað við 75% af starfsleyfi 1. júní og allsherjaropnun verður 15. júní. Áfram út þessa viku til 25. maí eru takmarkanir á skipulögðu íþróttastarfi, þannig að á sama tíma og 350 manns mega vera í Laugardalslaug í einu mega aðeins sjö vera saman á æfingu hverju sinni. Þessari þversögn verður eytt í næstu viku, en þangað til þarf að fylgja reglunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert