Boðað til fundar í kjaradeilu FFÍ og Icelandair

Samninganefndir FFÍ og Icelandair koma saman klukkan tvö í Karphúsinu, …
Samninganefndir FFÍ og Icelandair koma saman klukkan tvö í Karphúsinu, eða Gleðigarðinum. mbl.is/Golli

Búið er að boða til formlegs sáttafundar í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair klukkan tvö í dag. Þetta segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Fundurinn fer fram í húsakynnum ríkissáttasemjara sem í daglegu tali er kallað Karphúsið en Aðalsteinn telur að tími sé kominn á nýtt nafn og leggur til að það verði hér eftir kallað Gleðigarðurinn.

Óformlegir vinnufundir virðast hafa skilað árangri

Síðasti formlegi fundurinn í kjaradeilunni fór fram miðvikudaginn 13. maí en honum lauk án árangurs en óformlegir fundir áttu sér stað í gær í smærri hópum. Fundirnir voru hugsaðir sem vett­vangur fyr­ir minni vinnu­hópa til að koma sam­an og finna sam­eig­in­lega fleti. Sú aðferð virðist hafa skilað tilætluðum árangri.

Kvartað yfir Boga

Í kjöl­farið af fundinum 13. maí sendi Icelanda­ir frá sér til­kynn­ingu þar sem kom fram að þau til­boð sem lögð höfðu verið fram að hálfu fé­lags­ins hefðu verið til þess fall­in að auka sam­keppn­is­hæfni Icelanda­ir og verja ráðstöf­un­ar­tekj­ur starfs­manna á sama tíma.

Flug­freyj­ur lögðu fram sitt eigið til­boð en fengu þau svör að samn­inga­nefnd Icelanda­ir sæi sér ekki fært að ræða við samn­inga­nefnd FFÍ á þeim grund­velli sem til­boðið var lagt fram á.

Síðar sama dag fór Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir Group, fram hjá samn­inga­nefnd Flugfreyjufélagsins og sendi fé­lags­mönn­um þess tölvu­póst sem inni­hélt til­boð Icelanda­ir ásamt skýr­ing­um og kynn­ing­ar­bæk­lingi og hvatti þær til að kynna sér gögn­in vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert