38% þingmanna orðið fyrir einelti

mbl.is/Kristinn Magnússon

20% þátttakenda í könnun á starfsumhverfi á Alþingi hafa orðið fyrir einelti. Einelti er algengast meðal þingmanna, en alls hafa 37,7% þingmanna orðið fyrir einelti og 18,4% allra þátttakenda í könnuninni hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni. Af þeim 28 svarendum sem höfðu upplifað einelti á starfstíma sínum voru 35,7% sem höfðu orðið fyrir því á síðustu sex mánuðum.

Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni voru kynntar þingmönnum og starfsfólki skrifstofu Alþingis í dag. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði á þingfundi að sér þættu niðurstöður könnunarinnar „sláandi“.

Könnunin var gerð í janúar og febrúar sl. og var markmið hennar að safna gögnum um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni meðal þingmanna, starfsfólks þingflokka og starfsfólks skrifstofu Alþingis og greina þau. 

Af 206 manns svöruðu 153 og því var svarhlutfallið 74,3%.

Hlutfall þeirra sem greindu frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni var 16%. Af þeim 24 svarendum sem höfðu upplifað kynferðislega áreitni á starfstíma sínum voru 12,5% sem höfðu orðið fyrir henni á síðustu sex mánuðum.

Mikill meirihluti þeirra sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni greindi frá því að karl hefði áreitt sig kynferðislega, eða 87,5%, en 12,5% gerenda voru konur. Einungis 12,5% þeirra sem orðið höfðu fyrir kynferðislegri áreitni tilkynntu um athæfið.

16% þingmanna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starfið

Af þeim 45 þingmönnum sem svöruðu könnuninni höfðu 23,3% upplifað að myndir og/eða ummæli um þau sem höfðu kynferðislegar vísanir eða inntak birst í fjölmiðlum. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 31,6% kvenkyns þingmanna og 16,7% karla á þingi.

Þá töldu 29,5% sig hafa orðið fyrir áreitni, þ.e. hegðun sem er ítrekuð og ógnandi. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 36,8% kvenna og 24% karla á þingi. Tæp 16% þingmanna greindu frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt á Alþingi. Jafnframt greindu 14,6% svarenda frá því að nánum fjölskyldumeðlimum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf sín á Alþingi og tæp 50% töldu að starf þeirra sem þingmenn hefði valdið fjölskyldumeðlimum erfiðleikum í störfum eða námi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina