Búið að slökkva gróðurelda

Fossinn Glanni í Norðurá.
Fossinn Glanni í Norðurá. www.mats.is

Tekist hefur að slökkva í gróðureldum sem loguðu í Norðurárdal í gær og í nótt og eru síðustu menn að ljúka störfum á svæðinu að sögn Bjarna Þor­steins­sonar, slökkviliðsstjóra Borg­ar­byggðar. 

Tilkynnt var um eldinn á sjötta tímanum í gær, en hann var á svæðinu hjá Glanna og Paradísarlundi, fyrir neðan þjóðveg. Að sögn Bjarna er ekki vitað um eldsupptök né heldur hversu stórt svæði nákvæmlega er brunnið. Það verður ekki ljóst fyrr en búið verður að fara yfir myndir sem teknar voru með dróna. 

Til stóð að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðstoðar við slökkvistarf, en eina nothæfa þyrla hennar var send austur á Vopnafjörð þar sem leitað var skipverja sem talinn er hafa fallið fyrir borð af fiskiskipi á leið þess til hafnar í Vopnafirði. Bjarni segir í samtali við mbl.is í morgun að þetta sé mjög bagalegt, að aðeins ein þyrla Landhelgisgæslunnar sé nothæf á landinu. 

Slökkviliðsmenn frá Akranesi og Suðurnesjum komu til aðstoðar og að sögn Bjarna kom slökkviliðið á Akranesi með bæði bíla og mannskap auk þess sem tíu slökkviliðsmenn af Suðurnesjum tóku þátt í aðgerðunum í gærkvöldi og nótt. Aðstæður voru erfiðar fyrir slökkvistörf á svæðinu. Svæðið er grýtt og erfitt yfirferðar.

Ekki er vitað hvernig eldurinn kviknaði að sögn Bjarna. Svæðið sem brann er mosi vaxið og er mosinn að minnsta kosti 2-3 þúsund ára gamall. Í mosanum er bæði lyng og birkikjarr.

Að sögn Bjarna er ekki von á rigningu fyrr en á morgun samkvæmt spánni og verður slökkviliðið áfram með eftirlit á svæðinu. 

Bruninn, úr fjarska, í gærkvöld.
Bruninn, úr fjarska, í gærkvöld. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is