Ríkið viðurkennir brot í Byko-málinu

mbl.is/Arnar Þór

Íslenska ríkið viðurkennir brot sitt í málum sex fyrrverandi starfsmanna Húsasmiðjunnar og Byko, eftir því sem fram kemur í sex dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum mannanna. Mennirnir voru sakfelldir fyrir ólöglegt verðsamráð fyrir Hæstarétti í desember 2016. 

Í dómum Mannréttindadómstólsins er sátt milli íslenska ríkisins og umræddra starfsmanna staðfest, en dómarnir eru allir eins. 

Mannréttindadómstólinn hafði áður komist að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að íslenska ríkið hefði brotið á fyrrverandi starfsmanni Húsasmiðjunnar sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi fyrir Hæstarétti í Byko-málinu. Var talið að maðurinn hefði ekki fengið að njóta réttlátrar málsmeðferðar þar sem Hæstiréttur hefði snúið við dómi héraðsdóms og byggt á munnlegum vitnisburði fyrir héraðsdómi, án þess að hafa hlýtt á vitnisburðinn fyrir Hæstarétti. 

Í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins frá því í fyrra, í máli Júlíusar Þórs Sigurþórssonar, viðurkenndi ríkið brot sitt í málum hinna mannanna sex og var gengið til sátta gagnvart þeim. Í öllum málum var brotið það sama, en Hæstiréttur var talinn hafa brotið gegn lögum um milliliðalausa málsmeðferð og sönnunarfærslu og reglur Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. 

Tólf starfs­menn BYKO, Húsa­smiðjunn­ar og Úlfs­ins bygg­inga­versl­un­ar voru upp­haf­lega ákærðir í mál­inu, en all­ir voru þeir sýknaðir fyr­ir héraðsdómi fyr­ir utan einn.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari gaf út ákæru í mál­inu í maí árið 2014 en fyr­ir­tæk­in þrjú voru grunuð um að hafa með sér verðsam­ráð. Dóm­ur var kveðinn upp í héraði í apríl árið 2015, en fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri bygg­inga­sviðs BYKO var sá eini sem var sak­felld­ur. Hann var þá dæmd­ur í eins mánaðar skil­orðsbundið fang­elsi.

Hæstirétt­ur sneri hins veg­ar dómi héraðsdóms og dæmdi sex starfs­menn BYKO og Húsa­smiðjunn­ar fyr­ir refsi­vert verðsam­ráð. Var fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri hjá BYKO dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi og koll­egi hans hjá Húsa­smiðjunni í níu mánaða fang­elsi. Tveir fyrr­ver­andi vöru­stjór­ar Húsa­smiðjunn­ar voru þá dæmd­ir ann­ars veg­ar í níu mánaða fang­elsi og hins veg­ar í þriggja mánaða fang­elsi.

Fyrr­ver­andi versl­un­ar­stjóri timb­ur­sölu og fyrr­ver­andi sölu­stjóri fag­sölu­sviðs BYKO voru þá hvor um sig dæmd­ir til að sæta fang­elsi í þrjá mánuði.

Hæstirétt­ur staðfesti þá sýknu­dóm Héraðsdóms yfir tveim­ur mann­anna.

All­ir voru fang­els­is­dóm­arn­ir skil­orðsbundn­ir, nema í til­felli fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra BYKO, en fulln­ustu 15 mánaða af 18 mánaða refs­ingu hans var frestað skil­orðsbundið í þrjú ár.

Í tengsl­um við þetta mál hafði Sam­keppnis­eft­ir­litið dæmt BYKO til að greiða 650 millj­ón­ir í sekt vegna sam­ráðsins. Lækkaði héraðsdóm­ur þá upp­hæð í 400 millj­ón­ir. Áfrýj­un­ar­nefnd sam­keppn­is­mála taldi hins veg­ar að lækka ætti sekt­ina niður í 65 millj­ón­ir, en Lands­rétt­ur staðfesti að sekt­in ætti að vera 325 millj­ón­ir. Húsa­smiðjan hafði áður viður­kennt sök í mál­inu og með sátt­ar­sam­komu­lagi fall­ist á að greiða 325 millj­ón­ir.

mbl.is