Hraunvallaskóli og Smáraskóli sigurvegarar

Frá vinstri: Telma Ýr Birgisdóttir, Jón Guðnason, Vigdís Erla Davíðsdóttir, …
Frá vinstri: Telma Ýr Birgisdóttir, Jón Guðnason, Vigdís Erla Davíðsdóttir, Mikael Nói Richter, Guðni Th. Jóhannesson, Gabija Sól Stefánsdóttir, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Óliver Garðarsson og Halldóra Lind Guðlaugsdóttir. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson Thors

Hraunvallaskóli bar sigur úr býtum og Salaskóli varð í öðru sæti í flokki skóla með yfir 450 nemendur í Lestrarkeppni grunnskólanna sem Almannarómur og Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík stóðu fyrir nýverið. Í flokki skóla með færri en 450 nemendur varð Smáraskóli í fyrsta sæti og Grunnskólinn á Þórshöfn í öðru sæti.

Góð þátttaka var í keppninni og munar mikið um framlag grunnskólanema í söfnun raddsýna í gagnagrunn á síðunni samromur.is en alls lásu nemendur sigurliðs Hraunvallaskóla 50 þúsund setningar inn og nemendur Smáraskóla lásu 37.655 setningar.

Lestrarkeppnin er liður í að safna raddsýnum á íslensku í opinn gagnagrunn sem þeir geta notað sem vinna að því að samþætta íslensku og hina stafrænu tækni þannig að tölvurnar skilji íslensku. Til að svo verði þarf meðal annars að tryggja að tæknin skilji raddir barna og unglinga sem í dag tala flest við sín tæki á ensku, segir í tilkynningu vegna keppninnar.

mbl.is