Hugsanlega 500 manns í næsta skrefi

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Bjarn­heiður Halls­dótt­ir á fundinum.
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Bjarn­heiður Halls­dótt­ir á fundinum. Ljósmynd/Lögreglan

Hugsanlega verður næsta skref um fjöldatakmarkanir tekið þremur vikum eftir þær takmarkanir sem verða settar á 25. maí. „Við höfum verið að ræða okkar á milli um kannski 500 manns,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi.

Farið verður úr 50 manns í 200 manns 25 maí. Sjá verður árangurinn af þeirri breytingu áður en ákveðið verður hvort fjölgað verður í 500 manns.

Farið af neyðarstigi eftir helgi

Til stendur að almannavarnir fari af neyðarstigi vegna veirunnar eftir helgina. Spurður hvað þurfi til að neyðarstigið verði aftur sett á sagði Þórólfur: „Ætli það verði ekki þegar þið verið farin að sakna okkar.“

Víðir bætti við að það þurfi samfélagslega útbreiðslu veirunnar á nýjan leik til að neyðarstig verði aftur sett á. Ef upp kemur hópsýking á ákveðnu svæði verður neyðarstig sett á fyrir það svæði en ekki landið allt.

„Verðum í startholunum“

Þórólfur sagði ákveðna hættu fólgna í að aflétta takmörkunum en að áfram verði góð vöktun til staðar og sýni tekin. Heilsugæslan mun taka sýni af fólki með einkenni og Íslensk erfðagreining mun hjálpa ef á þarf að halda.

„Við verðum í startholunum, þannig er það með smitsjúkdóma almennt,“ sagði hann.

mbl.is