„Kostar 0 krónur fyrir ríkið ef við vinnum verkið“

Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA.
Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum í dag með yfir 40 manns í vinnu og á hlutabótaleið. Ef þetta mál endar okkur í vil þá fer fólkið af hlutabótaleiðinni og það ásamt skattgreiðslum sem yrði af þessu verkefni á Íslandi mun að öllum líkindum gera það að verkum að verkefnið kostar nettó 0 krónur fyrir ríkið ef við vinnum verkið. En ef það fer til Bretlands þá kostar það 300 milljónir,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA sem hefur kært Ríkiskaup til Kærunefndar útboðsmála vegna ákvörðunar Ríkiskaupa um að ganga að tilboði bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi í verkefninu „Ísland – saman í sókn“.

„Það er mikið búið að tala um í þessu máli að það sé ólöglegt að mismuna fyrirtækju í útboðum eftir þjóðerni. Það er gott og blessað. En það ætti að gilda í báðar áttir. Nú í þessu útboði var mismunað eftir þjóðerni erlendu stofunni í vil. Það er undarlegt í útboði sem heitir Ísland saman í sókn.”

„Engin íslensk auglýsingastofa hefði átt möguleika á því að vinna útboð sem þetta með sömu sögu að baki og M&C Saatchi. Stofa sem er til rannsóknar fyrir stórfelld fjársvik sem ekki var upplýst fyrir dómnefnd þegar útboðið fór fram. Þar er brotið gegn jafnræði og mismunað gagnvart innlendum fyrirtækjum. Þar sem fréttir af þessu máli höfðu ekki ratað í íslenska fjölmiðla. Þar sem um flýtiútboð var að ræða þá sinntu Ríkiskaup ekki rannsóknarskildu sinni fyrir útboðið og ætti því að gera það eftir útboðið og útiloka fyrirtæki sem ekki upplýsir um hluti sem þetta við tilboðsgerðina.”

„Einn dómari dæmir á skjön við alla dómnefndina og gefur okkur 3 í einkunn í öllum liðum á sama tíma og allir aðrir dómarar gefa okkur toppeinkunn. Bara þessi dómari einn og sér veldur því að verkefnið endar í Bretlandi en ekki á Íslandi.”

„Það er undarlegt að við skulum vera að senda verkefni sem þetta til Bretlands á sama tíma og breska ríkið hefur ákveðið að sniðganga EES í öllum útboðum þetta árið. Slíkt hlýtur að eiga að virka í tvær áttir,“ segir Guðmundur enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert