MeToo afhjúpaði margt

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir niðurstöðu skýrslu um starfsumhverfi Alþingis ekki koma sér á óvart. 

„Þetta kemur mér ekki á óvart. Ég hef auðvitað verið á þingi í 13 ár og ég tek það fram að persónulega finnst mér ég ekki hafa lent í meiri háttar áföllum sem þingmaður. En auðvitað kemur þetta ekki á óvart. MeToo náttúrulega afhjúpaði mjög margt sem tengist kyndbundnu og kynferðislegu áreiti í garð stjórnmálakvenna. Þetta er að vissu leyti staðfesting á því sem þar kom fram,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. 

Alþingi birti í gær niður­stöður könn­un­ar á starfs­um­hverfi þings­ins. Sam­kvæmt könn­un­inni hafa tæp 38% þing­manna orðið fyr­ir einelti og tæp 30% þing­manna töldu sig hafa orðið fyr­ir áreitni, það er hegðun sem er ít­rekuð og ógn­andi. 

„Það er líka umhugsunarefni það sem kemur fram um fjölskyldur kjörinna fulltrúa. Ég veit sjálf um slík dæmi,“ segir Katrín en 14,6% svarenda í könnuninni sögðu að nánum ættingjum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf þeirra á Alþingi og tæp 50% töldu að starf þeirra sem þingmenn hefði valdið fjölskyldunni erfiðleikum í störfum eða námi. 

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis sagði í dag að spurningunum í könnuninni væri ekki einungis beint að starfi þingmanna innan Alþingis, heldur einnig því sem þingmenn sæta úti í samfélaginu og áreitni sem þeir verða fyrir annars staðar en á vinnustaðnum Alþingi. 

„Annars vegar erum við að tala um áreitni inni á vinnustaðnum, sem er flókið að eiga við því hér erum við að ræða um kjörna fulltrúa, og hins vegar er það sem gerist utan þings og fylgir að einhverju leyti því að vera í opinberu embætti,“ segir Katrín. 

Hún segist þó sjálf ekki finna fyrir mikilli áreitni í sinn garð.

„Mín persónulega tilfinning er að ég held mínu striki þrátt fyrir það embætti sem ég gegni núna. Ég fer í matvörubúðina og versla inn og hef ekki verið að upplifa áreitni við það. En við verðum að taka þessum niðurstöðum alvarlega, ég hef heyrt um ýmislegt á mínum þrettán árum á þingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert