Pipar/TBWA kærir Ríkiskaup

„Ísland – saman í sókn“ er markaðsátak sem stjórnvöld ákváðu …
„Ísland – saman í sókn“ er markaðsátak sem stjórnvöld ákváðu að ráðast í til landkynningar á Íslandi sem ferðamannastaðar á erlendum mörkuðum í kjölfar COVID-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auglýsingastofan Pipar/TBWA hefur kært Ríkiskaup til kærunefndar útboðsmála vegna þeirrar ákvörðunar að ganga að tilboði bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi í verkefninu „Ísland – saman í sókn“.

Í kærunni kemur fram að Pipar/TBWA telji að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup með þátttöku M&C Saatchi, þar sem brotið hafi verið m.a. gegn jafnræðisreglu laganna og aukinheldur hafi verið horft fram hjá sérstöku hæfi M&C Saatchi, sem Pipar/TWBA telur að hefði átt að útiloka þátttöku félagsins í útboðinu.

Pipar/TBWA krefst þess að tilboð M&C Saatchi verði metið ófullnægjandi og að gengið verði til samninga við Pipar/TBWA. Þá er þess krafist að fyrirhuguð samningsgerð verð i stöðvuð um stundarsakir á meðan kærunefndin leysir úr kærunni.

Málsástæður Pipars/TBWA eru þær að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu laga um opinber innkaup, sem kveður m.a. á um að óheimilt sé að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti, en tilboðsfjárhæð útboðsins var 300 milljónir króna með virðisaukaskatti, en fyrir liggur að M&C Saatchi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili á Íslandi og þarf þannig ekki að standa skil á virðisaukaskatti af þjónustu sem hann innir af hendi fyrir íslenska aðili. „Fæst þannig ekki séð hvernig kærandi getur staðið jafnfætis þessum erlenda aðila, ef fjárhæðir eru látnar innihalda virðisaukaskatt,“ segir í kærunni.

Þá telur Pipar/TBWA að samkvæmt Handbók Ríkiskaupa um opinber innkaup skuli kaupendur óska eftir því að bjóðendur leggi fram gögn um spillingu og sviksemi í rekstri og að samkvæmt lögum um opinber innkaup sé skylt að útiloka aðila sem gerst hafi sekir um slíkt, en fram hefur komið að breska fjármálaeftirlitið hefur hafið rannsókn á fyrirtækinu vegna 11,6 milljóna punda, rúmlega tveggja milljarða króna, bókhaldsbrota og hafa stjórnendur fyrirtækisins jafnframt viðurkennt að rangfærslur í bókhaldi þess gætu náð mörg ár aftur í tímann.

„Það er því ljóst, að mati kæranda, að M&C Saatchi Ltd. getur trauðla talist uppfylla almennar reglur um fyrirtæki sem séu gjaldgeng til viðskiptasambanda í innkaupa- og útboðsferlum opinberra aðila, skv. lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 og þannig kynni að vera ástæða til að útiloka félagið frá þátttöku í innkaupaferlinu.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert