Ríflega 100 milljarða útgjöld

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. mbl.is/Golli

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að áhrif mótvægisráðstafana stjórnvalda á sjóðstreymi ríkissjóðs á yfirstandandi ári vegna kórónuveirunnar nemi ríflega 200 milljörðum króna eða sem svarar til um 7% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Samanlagt nemur áætlað umfang ráðstafana í útgjöldum ríkissjóðs á yfirstandandi ári ríflega 100 milljörðum króna. Þar vega þyngst greiðslur hlutaatvinnuleysisbóta og fyrirhugaðar greiðslur á hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti en áætlað umfang þessara aðgerða nemur ríflega 60 milljörðum króna.

Meginhluti tekjuráðstafananna kemur fram í frestun skattheimtu fram í janúar á næsta ári en áætluð áhrif þeirra á sjóðstreymi ríkissjóðs eru um 95 milljarðar króna á yfirstandandi ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands þar sem segir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi kynnt ríkisstjórn í gær umfang mótvægisráðstafana stjórnvalda. 

Fram kemur að forsendur hafi breyst á síðustu vikum í þá veru að áhrif faraldursins verði djúpstæðari og langvinnari en gert hefur verið ráð fyrir. Afkomuhorfur hafa einnig versnað.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar galtóm vegna kórónuveirunnar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar galtóm vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaður vegna ríkisábyrgða ekki í tölunum

Í framangreindum fjárhæðum hefur ekki verið tekið tillit til hugsanlegs kostnaðar sem kann að falla á ríkissjóð vegna veitingar ríkisábyrgða á viðbótarlán og stuðningslán til fyrirtækja. Áætlað umfang ábyrgðanna nemur allt að 90 milljörðum króna eða hátt í 4% af VLF en óvissa ríkir um hversu mikill kostnaðurinn verður í raun og veru og hvenær hann fellur til. Miðað við helmingsafskriftir gæti umfangið numið um 45 milljörðum króna.

„Ljóst má vera að áhrif faraldursins verða mun meiri á fjárhag ríkissjóðs en sveitarfélaganna þar sem ríkið mun bera hitann og þungann af mótvægisaðgerðum, hvort sem er í gegnum sjálfvirka sveiflujafnara ríkisfjármálanna eða sérstakar ráðstafanir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert