26 þúsund gætu verið án vinnu

Vorstemning í miðbæ Reykjavíkur.
Vorstemning í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Seðlabankinn spáir því í nýjum Peningamálum að atvinnuleysi geti farið í 12% á þriðja ársfjórðungi. Það sé mesta atvinnuleysi sem um getur síðan skipulegar mælingar hófust. Gæti það samsvarað því að um 26 þúsund manns verði án vinnu.

Það yrði fjölgun um 9-10 þúsund manns frá aprílmánuði. Að auki voru um 32.800 manns á hlutabótaleiðinni í apríl en sú leið var í boði fyrir fólk sem bjó við skert starfshlutfall út af faraldrinum.

Vinnumálastofnun umreiknar þennan fjölda í atvinnuleysisprósentur með því að leggja saman skerðingu á starfshlutfalli. Ef til dæmis tveir fara í 50% vinnu jafngildir það því að einn sé án vinnu.

Vinnumálastofnun hefur tekið saman tölfræði yfir atvinnuleysi erlendra ríkisborgara og skiptingu eftir starfsgreinum. Leiðir sú greining í ljós að hlutfallið er um 7% í fiskveiðum, fiskeldi og vinnslu, um 8% í iðnaði og um 14% í byggingariðnaði. Eins og sýnt er á grafinu hér hægra megin er hlutfallið líka yfir 10% í verslun, gistiþjónustu og veitingaþjónustu. Af því leiðir að samdráttur í ferðaþjónustu á mikinn þátt í atvinnuleysi erlendra ríkisborgara, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Skal tekið fram að hlutföllin vísa til skiptingar atvinnuleysis innan hópsins en ekki hlutfalls hans af heildarfjölda atvinnulausra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert