Bandarísk lög gildi um eignir Íslendings

Hæstiréttur telur að bandarísk lög gildi um eignir mannsins og …
Hæstiréttur telur að bandarísk lög gildi um eignir mannsins og því fær ekkjan þær óskiptar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur sneri í gær dómi Landsréttar og dæmdi ekkju manns í vil. Þannig fær ekkjan allar eignir mannsins í Bandaríkjunum en ekki börnin hans þrjú sem maðurinn eignaðist með fyrri konu sinni.

Um er að ræða tvö skyld mál en þau eru þannig vaxin að Landsréttur hafði fallist á kröfu barna manns sem átti bæði fasteign og innistæður á bankareikningum í Bandaríkjunum um að eignir hans í Bandaríkjunum féllu undir opinber skipti á dánarbúi mannsins.

Ekkja mannsins hafði gert kröfu um að fasteignin og innistæðurnar féllu ekki undir skiptin.

„Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila að því hvort um eignarhald á fasteigninni og fjármunum á bankareikningunum færi eftir ákvæðum íslenskra lagareglna eða laga í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum um svokallað JTWROS sem fæli í sér að við andlát skammlífari sameiganda ljúki eignarrétti hans og öll eignin falli þar með óskipt til hins langlífari,“ segir í samantekt Hæstaréttar um málið.

Ekkjan fær fasteignina og innistæðurnar

Í dómunum tveimur sem Hæstiréttur felldi í gær kom fram að samkvæmt ólögfestum lagaskilareglum sé meginreglan sú að erfðir fari eftir reglum þess lands sem arfleiðandi, þ.e. faðir barnanna, átti síðast heimilisfesti í en maðurinn átti heimilisfesti á Íslandi.

Á móti kemur að ef lög erlends ríkis þar sem eign er staðsett, í þessu tilviki Suður-Karólínu, mæla fyrir um sérstakar reglur varðandi slíkar eignir, sem komi í stað almennra reglna, víki meginreglan fyrir sérreglunni. Þannig gilda lög þess lands sem eignirnar eru í, Bandaríkjunum, um eignir mannsins.

Af þessum ástæðum fær ekkjan bæði fasteignina og innistæður mannsins á bandarískum bankareikningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert