Pétur Einarsson er látinn

Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri, lést í gær 72 ára að aldri eftir baráttu við hvítblæði. Pétur hélt úti Facebook-hópnum Dagbók krabbameinssjúklings þar sem hann sagði frá daglegu lífi og hvatti aðra sem þjást af krabbameini til að gera slíkt hið sama. 

Pétur var flugmálastjóri frá árunum 1983 til 1992. Þá var hann með réttindi sem héraðsdómslögmaður, atvinnuflugmaður og minni skipstjórnarréttindi. Eftir Pétur liggja nokkrar bækur. 

Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri, átti fjölbreyttan feril að baki.
Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri, átti fjölbreyttan feril að baki.

Eftirlifandi eiginkona Péturs er Svanfríður Ingvadóttir. 

„Ég get hvorki setið, legið né staðið og er hugsað til miljóna samborgara minna sem búa við MIKIÐ aumari kjör en ég“, skrifar Pétur í færslu í Dagbók krabbameinssjúklings 17. maí síðastliðinn. 

„Fullvissa er leiðarvísir ykkar“

Á síðunni segir Pétur frá erfiðum raunveruleikanum en húmorinn er ávallt skammt undan. Hópurinn er opinn en þar birti Pétur sína hinstu kveðju í byrjun apríl. Þar sendir hann skilaboð til þeirra sem kveðjuorðin lesa:

„Trúið ímyndunaraflinu, lifið í friði með og á Jörðinni í raunveruleikanum, meðan þið eruð þar - en bíðið þolinmóð framtíðar ykkar. Temjið ykkur að skilja og treysta fullvissu sem ykkur er gefin. Fullvissa er leiðarvísir ykkar - líkhamleg skynjun er vegvísir ykkar um jarðlífið, en ekki frekari leiðarvísir en það.“

mbl.is