Aldrei fleiri sótt um í læknisfræði

Aldrei hafa fleiri sótt um nám í læknisfræði við Háskóla …
Aldrei hafa fleiri sótt um nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Landspítalinn

Umsóknum í læknisfræðinám við Háskóla Íslands fjölgaði á milli ára í heimsfaraldrinum. Samtals sóttu 384 um að fara í inntökupróf sem verður haldið snemma í júní.

Umsóknirnar virðast fleiri í ár en nokkru sinni fyrr, en aðsóknin var sögð aldrei hafa verið meiri árið 2011, þegar 310 þreyttu inntökupróf í læknisfræði. Eftir það fækkaði þeim aftur en fjölgaði svo aftur ár frá ári og árið 2015 voru þær til að mynda 270. Árin 2018 og 2019, þegar tvöfaldir árgangar voru að koma úr menntaskólunum vegna styttingarinnar, fjölgaði umsóknunum sem því nam og voru 348 árið 2018 og 323 árið 2019. 

Enn er verið að taka við umsóknum í grunnnám í hjúkrun, enda er þar ekki inntökupróf heldur mikilvægt lokapróf eftir fyrstu önn sem ræður úrslitum um framvinduna í náminu. Inga Þórsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs háskólans, telur þó að áhuginn verði mikill á hjúkrun. Það hefur verið að fjölga þar eftir að háskólinn fór að taka við fleirum vegna aukinnar þarfar hjá sjúkrahúsunum. Fólk veit að það fær vinnu.

Af 384 sem skrá sig í inntökuprófið í læknisfræðina komast 60 inn og býðst að hefja nám. Öðrum er boðið að skrá sig í aðrar greinar. 

112 í sjúkraþjálfun

112 sóttu um inntökupróf í sjúkraþjálfun, en þar eru 35 teknir inn. Það er svipaður fjöldi og í fyrra, 98. Umsóknirnar, um sjúkraþjálfaranám sem læknanám, verða að líkindum einhverju færri þegar búið er að fara yfir þær og kanna hverjar eru gildar. Allir fá þó að fara í inntökuprófið sem vilja.

Skemmst er frá því að segja að í fyrra var gerð óheppileg reikningsvilla við yfirferð inntökuprófanna, sem olli því að fólk komst ekki inn sem átti að komast inn. Menn sem lentu í 150. sæti áttu í raun að vera í 23. sæti, o.s.frv. Villan var leiðrétt og þeir sem höfðu orðið fyrir henni fengu skólavist.

mbl.is