Hægt að safna 75.000 krónum í gjafabréfum

Ferðamenn á Hakinu horfa yfir Þingvelli.
Ferðamenn á Hakinu horfa yfir Þingvelli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hver einstaklingur má safna 15 ferðagjöfum á sína kennitölu og greiða með þeim samtals 75.000 kr. Í upphafi júní verður öllum Íslendingum fæddum 2002 eða fyrr úthlutað 5.000 króna gjafabréfi til að nota á ferðalagi um Ísland í sumar.

Leyfilegt er að taka við gjafabréfum annarra og færa á sína kennitölu en hver má þannig aðeins safna fimmtán gjafabréfum. 

Þá má hvert fyrirtæki aðeins taka við 100 milljónum í formi þessara gjafabréfa og aðeins 25 milljónum hafi fyrirtækið verið metið í rekstrarerfiðleikum í lok síðasta árs. Samtals verða gefin út gjafabréf að andvirði 1,5 milljarða. 

Stjórnvöld hafa þá skilgreint hvar megi nákvæmlega nota ferðagjöfina, nefnilega hjá eftirtöldum rekstraraðilum: 

  • Fyrirtæki með gilt leyfi skv. III. kafla laga um ferðamálastofu, þ.e.a.s. ferðaskrifstofur og ferðasalar dagsferða
  • Fyrirtæki með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e.a.s. gististaðir í flokki II-IV og veitingastaðir í flokki II og III, og fyrirtæki með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd til veitingastaða í flokki I
  • Ökutækjaleigur með gilt starfsleyfi skv. lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja
  • Söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur kynnt frumvarp þessa efnis í ríkisstjórn, en áður hafði efni frumvarpsins mestallt verið kynnt. Hægt verður að nálgast gjafabréfið á ferdalag.is og má nota það hvar sem er á landinu, líka í sínum heimabæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert