Metnaður Play meiri en Ragnar hélt

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að sig hafi ekki grunað hve umfangsmikil starfsemi flugfélagsins Play er orðin, hve mikill metnaður sé fyrir starfinu og hve langt það er á veg komið. 

Ragnar skrifaði færslu á Facebook-síðu sína 18. maí þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvort flugfélögin Bláfugl og Play gætu fyllt skarðið fari svo að Icelandair verði gjaldþrota. 

„Er þetta virkilega leiðin sem við viljum fara? Fá hér flugfélög í skattaskjólsbraski sem veigra sér ekki við að úthýsa störfum til Indlands eða Filippseyja eða hverra landa sem réttindi og laun eru lægst fyrir mestu vinnuna? Setja svo restina á gerviverktöku í gegnum starfsmannaleigur? Þó ekki sé út frá flugöryggis sjónarmiðum hlýtur metnaður okkar að vera meiri en þetta,“ skrifaði Ragnar. 

Ragnar skrifaði aðra færslu í dag þar sem meðal annars kom fram að forsvarsmenn Play hafi haft samband við hann í kjölfar fyrri færslunnar og gert alvarlegar athugasemdir við að vera kenndir við þá háttsemi sem Ragnar skrifaði um. 

„Úr varð að forsvarsmenn Play buðu mér að koma í heimsókn og kynnast fólkinu og hugmyndafræðinni á bakvið félagið. Ég að sjálfsögðu þáði það boð enda ekki annað í boði en að standa fyrir máli sínu sé þess óskað. Þetta voru afar áhugaverðir tveir klukkutímar sem við sátum saman og fórum yfir málin með stjórnendum og starfsfólki. Ekki grunaði mig hversu umfangsmikil starfsemin er orðin, metnaðurinn, og kjörin sem félagsmenn okkar eru á. Það kom mér á óvart hversu langt þetta er komið en um 40 manns starfa hjá félaginu, margir með mikla reynslu af flugrekstri,“ skrifar Ragnar. 

Hann segist ekki vera yfir gagnrýni hafinn og að eftir að hafa fundað með Play hafi hann áttað sig á að það voru mistök að tengja þessi tvö flugfélög, Bláfugl og Play, með þeim hætti sem hann gerði. Segist hann harma það mjög og að Play verði að fá að njóta vafans. 

„Ég vona svo sannarlega að markmið forsvarsmanna Play um kjör þeirra sem munu starfa fyrir félagið standi og að eignarhald og fjármögnun félagsins verði opin og gagnsæ. Ég óska þessu dugmikla fólki alls hins besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina