„Mjög alvarlegur vírus“ á vefsíðu Gráa hersins

Hér má sjá það sem kemur upp þegar tölva með …
Hér má sjá það sem kemur upp þegar tölva með öfluga vírusvörn uppgötvar vírusinn.

Veirur og vírusar leynast á fleiri stöðum en úti í samfélaginu um þessar mundir því „mjög alvarlegum vírus“ hefur verið komið fyrir á vefsíðu Gráa hersins, baráttuhóps innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. 

Valgeir Hallvarðsson tæknifræðingur tók eftir vírusnum í dag en hann segir að hann sé hættulegur. 

Varhugavert að fylgja slóðinni

„Ég er með mjög öflugar vírusvarnir á tölvunni hjá mér og þarna kom upp aðvörun um mjög alvarlegan vírus. Þarna var reynt að beina mér inn á einhverja aðra heimasíðu,“ segir Valgeir.

„Þetta er mjög varhugavert fyrir þá sem ekki eru með réttar vírusvarnir. Þá er þetta síða sem myndi þá koma einhverjum njósnaforritum eða óþverra inn á tölvur viðkomandi. Þess vegna er afar varhugavert að fylgja slóðinni nema vera með svona öflugar vírusvarnir.“

Valgeir varar fólk við að fara inn á vefsíðuna og segir að til þess að losna við vírusinn þurfi vefstjóri Gráa hersins að bregðast við og hreinsa vírusinn út.

Netglæpir hafa aukist mikið á síðustu árum og hefur Ísland ekki farið varhluta af þeirri þróun.

mbl.is