Mjög hættulegt efni í leikfangi fyrir börn

Barnið þurfti að leggjast inn á Barnaspítala hringsins í kjölfar …
Barnið þurfti að leggjast inn á Barnaspítala hringsins í kjölfar þess að það innbyrti kopar-súlfatið. mbl.is/Hjörtur

Barn á grunnskólaaldri innbyrti kopar-súlfat nýlega sem var að finna í tilraunaverkfærum í leikfangapakka sem ber heitið „Science lab“ eða rannsóknarstofa og fékk í kjölfarið umtalsverð eitrunareinkenni. Barnið þurfti að leggjast inn á Barnaspítala Hringsins í kjölfarið en atvikið átti sér stað nýlega. 

Samkvæmt upplýsingum frá Barnaspítala Hringsins er kopar-súlfat mjög hættulegt efni. Það er ekki í miklu magni í tilraunaverkfærum Science lab en þó í nægilegu magni til að það geti valdið alvarlegum eitrunareinkennum hjá ungum börnum. 

Vara við leikfanginu

Spítalinn hefur reynt að hafa samband við söluaðila leikfangsins en það hefur ekki tekist. Málið hefur verið tilkynnt til Neytendastofu og varar spítalinn fólk við leikfanginu.

Leikfangapakkinn inniheldur eins konar þroskaleikföng sem eiga að auka áhuga barna á vísindum. Í honum er glas með kopar-súlfati sem er notað til að láta vatn skipta um lit. 

Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum koma eitrunarmál reglulega inn á þeirra borð og tengjast þau þá helst því þegar börn komast í lyf, hreinsivökva eða annað slíkt. Það er þó mun sjaldgæfara en áður var. Eitranir á borð við þá sem sagt er frá hér hafa ekki sést á spítalanum í langan tíma, ef þá nokkurn tímann. 

mbl.is