Skólabyggingar Samvinnuskólans á Bifröst friðlýstar

Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur, að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands, ákveðið að friðlýsa elsta hluta skólabygginga Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði. Tilkynnt var um friðlýsingu þessa í heimsókn ráðherra á Bifröst í gær.

Vilhjálmur Egilsson, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, …
Vilhjálmur Egilsson, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Reynir Ingibjartsson.

Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu og veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara að því er segir í fréttatilkynningu.

„Samkomuhúsið á Bifröst er mikilvægt og vel varðveitt dæmi um höfundaverk Sigvalda Thordarson og samstarfsmanna hans, Gísla Halldórssonar og Kjartans Sigurðarsonar, frá upphafsárum þeirra starfsferils. Ekki síst á það við innréttingar og búnað í samkomusal og setustofu, sem varðveist hefur í nær upprunalegri mynd allt til dagsins í dag,“ segir ráðherra.

Samkomuhúsið var elsta byggingin á Bifröst, þá samkomu- og veitingastaður í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga, þegar Samvinnuskólinn flutti þangað í land Hreðavatns í Norðurárdal árið 1955. Skólinn hafði þá áður verið til húsa á Sölvhólsgötu í Reykjavík þar sem nú eru skrifstofur mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þegar Samvinnuskólinn tók við samkomuhúsinu var svo reist við það viðbygging með tengigangi, þrílyft heimavistarálma, teiknuð af Skúla H. Norðdahl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert