Undirriti samning við stjórnvöld fyrir 15. júní

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur í hönd gests á …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur í hönd gests á hluthafafundinum í dag. Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, til hægri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair ætlar sér að undirrita samninga við stjórnvöld, lánveitendur, leigusala, söluaðila og fleiri fyrir 15. júní næstkomandi samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar sem félagið sendi frá sér í dag. Þá er hlutafjárútboð Icelandair fyrirhugað 29. júní til annars júlí næstkomandi. Útboðslýsing á að liggja fyrir einhvern tímann á bilinu 16. til 20. júní. 

Í tilkynningunni kemur fram að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands sé lokið en viðræður við lánveitendur og leigusala standa enn yfir. Þær viðræður snúast einkum um að endurskipuleggja núverandi langtímaskuldir og gæta þess að væntanlegt fjárstreymi muni standa undir þeim. Í viðræðunum er einnig horft til greiðslufría, breytinga á lykilskilmálum og skipulagsbreytinga. 

Ríkisstjórnin viljug til að lána Icelandair

Ríkisstjórnin hefur gefið til kynna vilja til að veita Icelandair lán með ríkisábyrgð, samkvæmt tilkynningunni. Slíkur stuðningur er þá háður ýmsum skilyrðum, þar með töldum ívilnunum lánveitenda, leigusala og söluaðila ásamt því að árangur náist í hlutafjárúrboði.

Þá eru viðræður við Boeing vegna Max 737-þotna sem voru kyrrsettar fyrir nokkru síðan enn í gangi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert