Eins og Fríhöfnin, nema Hagkaup

Á Taxfree-dögum í Hagkaup var þéttur straumur kvenna sem kom …
Á Taxfree-dögum í Hagkaup var þéttur straumur kvenna sem kom til að fylla á snyrtivörubirgðirnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í vikunni voru Taxfree-dagar í Hagkaupum, þar sem gefinn var 20% afsláttur af snyrtivörum. Sumarið er komið, fólk stundar þessi innkaup vart erlendis þessi dægrin, þannig að oft var þörf, nú nauðsyn. Eigi allfáir lögðu því leið sína í verslunina til að fylla á birgðirnar.

Heimildamaður mbl.is sem var á staðnum: „Þetta var bara eins og að vera kominn í Fríhöfnina. Konur streymdu að og margt spennandi og á góðu verði.“

Framkvæmdastjóri Hagkaupa, Sigurður Reynaldsson, tekur í sama streng við mbl.is: „Það var komin mikil uppsöfnuð þörf til að fylla á snyrtivörubirgðir. Við urðum verulega vör við það.“

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa. Ljósmynd/Aðsend

Allt saman þó í mesta sakleysi og ráðstafanir gerðar í versluninni til þess að halda tveggja metra millibilsástandi. „Síðan strekktum við á tímamörkunum og höfðum þetta í heila viku í stað fimm daga og lengdum opnunartíma, þannig að fólk dreifðist betur yfir tímabilið,“ segir Sigurður.

Sigurð grunaði að aðsóknin yrði góð. „Í heildina gekk þetta mjög vel. Það er alveg ljóst að við finnum fyrir því hér að fólk er ekki að komast í Fríhöfnina og við merkjum í raun gríðarlega aukningu í þessu hjá okkur,“ segir hann.

Tugum milljarða varið hér en ekki úti

Hann segir ljóst að forsendur séu breyttar fyrir alla verslun á landinu, þar sem landamæri eru víða lokuð og stór hluti fólks fer ekki í sumarfrí erlendis. „Við munum finna áfram fyrir því í sumar og þegar sjáum við almenna aukningu í flestum vöruflokkum,“ segir Sigurður. Þegar flestir voru heima í mars og apríl hafi allt fallið niður en um leið og reglurnar voru rýmkaðar og fólk komst út í sólina komst allt aftur á skrið. Hjól eru þannig að seljast upp í júní, sem áttu að endast út árið. Þar koma einnig lokanir líkamsræktarstöðva inn í dæmið.

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sagði í viðtali við mbl.is fyrr í dag að allt liti út fyrir að verslun myndi spjara sig ágætlega yfir sumarið á Íslandi, ekki síst vegna þeirra viðskipta sem beinast til innlendrar verslunar í stað verslana erlendis. Sú breyting er spurning um tugi milljarða, sem er betur varið hér en þar.

mbl.is