Gul viðvörun sunnan Vatnajökuls

Búast má við talsverðu hvassviðri sunnan Vatnajökuls í dag.
Búast má við talsverðu hvassviðri sunnan Vatnajökuls í dag. mbl.is/RAX

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris sunnan undir austanverðum Vatnajökli, en þar geta vindhviður náð yfir 30 m/s. Á sama tíma gæti hiti á höfuðborgarsvæðinu farið upp í 17 gráður, en á Austurlandi og Norðausturlandi gæti komið slydda eða snjókoma á heiðum.

Samkvæmt viðvörun á vef stofnunarinnar segir að varasamt sé á Suðausturlandi fram á hádegi vegna vinds og ökutæki geti tekið á sig mikinn vind. Þá er einnig búist við slyddu eða snjókomu á heiðum austast á landinu fram eftir degi og líkur á að færð fari að spillast á þeim slóðum.

Nokkuð betri spá er á vestari hluta landsins, en bjartviðri er bæði sunnan og vestan til á landinu í dag. Skýjað eða slydda getur verið norðaustanlands. Spáð er norðan 5-13 m/s víðast hvar nema suðaustan til þar sem vindur verður 15-20 m/s og hviður upp í 30 m/s.

Eftir hádegi á að draga smám saman úr vindi og stytta upp norðaustanlands. Hiti verður á bilinu 11 til 17 gráður yfir daginn, en 2 til 8 gráður á Norðaustur- og Austurlandi.

Á höfuðborgarsvæðinu verður austlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og bjartvirðri, en hiti verður á bilinu 12 og upp í 17 gráður yfir daginn.

Á morgun gengur í suðaustanstrekking með rigningu um landið sunnan og vestan til en lengst af úrkomulítið norðaustan til. Hiti verður 6 til 15 gráður, hlýjast fyrir norðan. Annað kvöld snýst svo í hægari suðvestanátt og dregur úr úrkomu.

mbl.is