Húsavík geti heillað tugi milljóna áhorfenda

Myndband við lagið Volcano Man úr væntanlegri Eurovision-mynd vakti mikla …
Myndband við lagið Volcano Man úr væntanlegri Eurovision-mynd vakti mikla athygli á dögunum.

„Það var mikið húllumhæ í kringum upptökurnar og ég held að fólk hér bíði spennt eftir myndinni. Ég hef líka væntingar um að húsvískir aukaleikarar sjáist á hvíta tjaldinu,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi.

Mikil eftirvænting er vegna frumsýningar Eurovision-myndar leikarans Wills Ferrell. Myndin nefnist Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og verður frumsýnd á streymisveitunni Netflix 26. júní næstkomandi. Tökur á myndinni fóru að stórum hluta fram hér á landi síðla árs í fyrra. Meðal tökustaða var Húsavík og segir sveitarstjórinn að hann bindi vonir við að það skili sér í auknum áhuga ferðamanna á heimsóknum þangað í framtíðinni.

„Ég er auðvitað ekki búinn að sjá hversu stórt hlutverk bærinn leikur í myndinni en miðað við uppleggið verður það töluvert. Við munum klárlega vinna með það dæmi þegar ferðaþjónustan kemst aftur í gang. Það munu tugir milljóna sjá þessa mynd um leið og hún kemur út svo þetta verður gríðarleg kynning á bænum,“ segir Kristján, sem kveðst telja að Húsavík muni kallast Húsavík í myndinni.

Í umfjöllun um myndatökurnar í Morgunblaðinu í dag segir Kristján að vonir standi til að hægt verði að sýna Húsvíkingum og nærsveitarfólki Eurovision-myndina á stóru tjaldi til að fagna þessum áfanga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert