Hvaða breytingar verða á mánudaginn?

Framkvæmd tveggja metra reglunnar verður breytt nokkuð. Þannig er horft …
Framkvæmd tveggja metra reglunnar verður breytt nokkuð. Þannig er horft til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægð. Eggert Jóhannesson

Frá og með mánudegi, 25. maí, mega 200 manns koma saman í stað 50 eins og er nú. Þá verður slakað á tveggja metra reglunni. Sömuleiðis verður heimilt að opna líkamsræktarstöðvar með sömu takmörkunum og gilda um sund- og baðstaði og öllum veitingastöðum, þar með töldum krám, skemmtistöðum og spilasölum, verður heimilt að hafa opið til klukkan ellefu að kvöldi til. 

Auglýsing heilbrigðisráðherra þessa efnis var birt í gær en hún er í fullu samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti ákvörðun sína um breytingar á takmörkunum á samkomum á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun. 

Tveggja metra reglunni breytt

Framkvæmd tveggja metra reglunnar verði breytt nokkuð. Þannig er horft til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægð. Því á að bjóða upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem gera slíkt kleift á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum. 

Innan líkamsræktarstöðva verður takmörkun á fjölda gesta. Þannig má einungis hleypa inn helmingi þess fjölda sem venjulega má sækja stöðvarnar heim, rétt eins og hefur verið gert á sund- og baðstöðum. Áfram verða gerðar sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýma. 

Fangelsin aflétta öllum höftum

Á mánudag verður sömuleiðis öllum höftum sem gilt hafa í fangelsum landsins frá því neyðarstig tók gildi aflétt.

Þórólfur hefur gefið það út að mögulega verði 500 manns heimilt að koma saman í næsta skrefi afléttinga. Það verður tekið um þremur vikum eftir þau skref sem greint er frá hér.

Eitt nýtt smit kórónuveiru greindist á síðastliðnum sólarhring en fimm smit hafa greinst í maímánuði. Öll nema eitt smitanna greindust hjá einstaklingum utan sóttkvíar.

mbl.is