Lögreglan bankaði upp á vegna hávaðasams kynlífs

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk nýverið tilkynningu þar sem lýst var yfir áhyggjum um að ofbeldi væri beitt í heimahúsi. Miðað við lýsingu lögreglunnar var þó alls ekki um neitt slíkt að ræða, heldur hávært kynlíf. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar nú í morgun.

Segir þar að tilefni kvartana til lögreglunnar sé misjafnt, en hátt stillt tónlist komi þar oft við sögu. Þá komi líka reglulega tilkynningar vegna framkvæmda og hávaðasamra rifrilda, en þá kunna stundum að vakna áhyggjur um að ofbeldi sé beitt. Mætti lögreglan nýverið á heimili í höfuðborgarsvæðinu vegna kvörtunar sem náði til síðastnefnda atriðisins.

Þegar barið var upp á kom nakinn karlmaður til dyranna og reyndist hann hissa á heimsókn lögreglunnar. Fyrir aftan hann var svo kona sem lögreglan segir að ekkert hafi amað að, heldur „þvert á móti virtist hún vera alsæl“.

Játuðu þau að hafa stundað kynlíf sem einhver hávaði hafi fylgt. Lét lögreglan þar við sitja en bað þau um að hafa lægra framvegis.

mbl.is