„Með því jákvæðasta sem við höfum séð“

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Skjáskot

Bráðabirgðarannsókn á ebólulyfinu Remdesivir við kórónuveirunni bendir til þess að lyfið minnki líkur á dauðsfalli og stytti veikindatímann. Yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans segir niðurstöðurnar jákvæðar. 

Rannsóknin birtist á vef New England Journal of Medicine og var gerð í 10 löndum. 1.063 sjúklingar inniliggjandi vegna veirunnar voru prófaðir í rannsókninni. Í ljós kom að veikindatímabil þeirra sem fengu Remdesivir var að meðaltali 4 dögum styttra og líkur á dauðsfalli sömuleiðis talsvert minni. 

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segir í samtali við mbl.is að niðurstöður rannsóknarinnar séu góðar fréttir. 

„Í þessari rannsókn er stytting á veikindaferlinu og síðan lækkar dánartíðnin. Það eru náttúrulega mjög góðar fréttir og tekur af öll tvímæli um það að lyfið verkar umfram lyfleysu,“ segir Már.

Lyfið, sem kom til Íslands fyrr í maí, er gefið út af Gilead og var fengið hingað í gegnum sérstakt verkefni. Upphaflega var hægt að sækja um lyfið þegar sjúklingur var kominn á öndunarvél og þá var lagt mat á sjúklinginn og ákveðið hvort heimiluð væri notkun á lyfinu. Vegna mikillar eftirspurnar var hætt við það verklag og ákveðið að gefa lyfið víðs vegar um heiminn, gegn því að það sé í rannsóknartilgangi.

„Við erum partur af því. Magnús Gottfreðsson hefur unnið mikið og mikilvægt starf fyrir okkur að fá þetta hingað til landsins,“ segir Már. 

Már segir að lyfið hafi þó ekki verið notað hér á landi. 

„Við fengum þetta ekki fyrr en bara rétt undir lokin. En við höfum það og getum notað það ef eitthvað kemur upp á. Von okkar er að fá að nota það fyrr í ferlinu, eins og þessi rannsókn sýnir, þeir nota þetta fyrr í ferlinu en við hefðum ætlað að nota það. Okkar skorður voru þannig að það átti að nota þetta eftir að fólk var komið á öndunarvél sem okkur leist ekkert sérstaklega vel á fræðilega séð og vonuðumst eftir því að fyrirtækið myndi breyta skilyrðunum. Það kann að vera að þau breytist í kjölfarið af þessari rannsókn.“

Spurður hvort rannsóknin á Remdesivir geti nýst við þróun á lyfi gegn kórónuveirunni segir Már það vera áhugaverða umræðu. 

„Það finnst mér alveg koma til álita. Ef þú gætir búið til gott lyf um munn sem virkar á þetta gæti það virkað líka á kórónuveirur sem valda kvefi. Það gæti verið heilmikill markaður fyrir þetta. Þetta eru spennandi tímar og mikilvægt framfaraskref sem sýnt er fram á í þessari rannsókn.“

Ýmis lyf hafa verið rannsökuð og prófuð til meðferðar við kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Már segir niðurstöður rannsóknarinnar á Remdesivir vera með þeim jákvæðustu. 

„Ég hugsa að þetta sé svona með því jákvæðasta sem við höfum séð hingað til. Eini ókosturinn er að þetta er bara gefið í æð, þetta er stungulyf en ekki töflulyf sem er alltaf svolítið óheppilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert