„Of fáir eftir til þess að fylla flugvél“

Upplýsingaskilti á flugvellinum á Alicante.
Upplýsingaskilti á flugvellinum á Alicante. AFP

Íslendingar á Spáni hafa leitað leiða til þess að komast heim til Íslands að undanförnu og leita enn leiða. Leiguflug er fyrirhugað frá Kanaríeyjum í byrjun júnímánaðar en leiguflug sem stefnt var á að færi í loftið á morgun eða hinn frá Alicante var blásið af vegna mikils kostnaðar. 

Einhverjir Íslendingar eru orðnir óþreyjufullir eftir því að komast til síns heima ef miðað er við skráningu í leiguflugið sem var vegum Íslendinga. Fimmtíu manns skráðu sig en það var ekki nóg til að flugið borgaði sig. 

„Það eru eiginlega of fáir eftir til þess að fylla flugvél,“ segir Karl Kristján Hafst Guðmundsson.

Hann er einn af þeim sem hefur skipulagt leiguflug fyrir Íslendinga en Karl er búsettur í Torrevieja og er ekki á leiðinni heim. Fluginu hans með Norwegian var aflýst nýverið og hann og kona hans ákváðu þá að gera ekki frekari tilraunir til þess að komast heim á klakann. 

Fólk með alzheimers sem þarf að komast heim

„Það eru alla vega örfáir sem þurfa að komast heim. Til dæmis fólk sem er að hraka af Alzheimers og er hætt að geta séð um sig sjálft,“ segir Karl. 

Ekki hefur verið gefist upp á leiguflugferðum, að sögn Karls þar sem nú sé horft til leiguflugs þann fyrsta júní frá Kanaríeyjum og einnig þann fimmtánda. Karl segir erfitt að komast heim til Íslands þessa dagana nema með ærnum tilkostnaði og miklu tilstandi. Þannig kosti gjarnan um 185.000 íslenskar krónur að komast heim frá Spáni eins og staðan er núna þar sem ferðalangar þurfa gjarnan að taka nokkur flug og gista í millitíðinni. 

„Það er hægt að lifa á Spáni í mánuð fyrir sömu upphæð,“ segir Karl.

Spánverjar orðnir óþreyjufullir

Hann telur að Spánverjar séu orðnir óþreyjufullir að fá aftur að lifa venjulegu lífi en aðeins meira frelsi sé þó að komast á. Fimmtán manns mega almennt hittast á Spáni frá og með mánudeginum en nú mega einungis 10 manns hittast. 

„Það er aðeins verið rýmka þetta en það er útlit fyrir að þetta viðvörunarástand vari út júní. Margir hafa misst vinnuna og stór hluti þeirra fær ekki bætur þar sem algengt er að fólk fái greitt svart á Spáni og sé því utan skattkerfisins.“

mbl.is