Viss um góða samninga um Max-vélar

Bogi Nils Bogason og Úlfar Steindórsson kynntu málin.
Bogi Nils Bogason og Úlfar Steindórsson kynntu málin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair mun bjóða út nýtt hlutafé að fjárhæð 22 til 29 milljarðar króna dagana 29. júní til 2. júlí. Tilgangurinn er að tryggja rekstur félagsins til frambúðar vegna áfalla sem það hefur orðið fyrir í kórónuveirufaraldrinum. Hluthafar samþykktu hlutafjáraukninguna á fundi í gær.

Áður þarf félagið að eyða óvissu um ýmis atriði. Stefnt er að því að ganga frá samningum við stjórnvöld um ábyrgðir á lánum, lánveitendur, leigusala, söluaðila, Boeing um Max-vélarnar og fleiri fyrir 15. júní.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag hefur Úlfar Steindórsson, formaður stjórnar Icelandair, fulla trú á að allir þessir samningar takist. Sérstaklega spurður um samninga við Boeing segir Úlfar að samningar um Max-vélarnar muni nást fyrir tilsettan tíma, spurningin sé aðeins um það hvernig málinu verði lokað. „Ég veit þó að niðurstaðan verður góð fyrir félagið.“

„Ég er mjög bjartsýnn um það,“ segir Úlfar um árangur væntanlega hlutafjárútboðs. „Ég veit fyrir hvað félagið stendur og verðmæti sem í því eru. Ég hef fulla trú á því að þegar þetta verður kynnt fyrir mögulegum fjárfestum muni þeir sjá sömu mynd og ég er að horfa á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert