B5 aldrei verið tilbúnari í djammið

Nýr bás fyrir plötusnúðinn og gluggatjöld sem breyta birtustiginu á …
Nýr bás fyrir plötusnúðinn og gluggatjöld sem breyta birtustiginu á staðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er mikill skellur að þurfa að loka skemmtistað í tvo mánuði, sitja uppi tekjulaus og áfram tikkar fasti kostnaðurinn. Það er þó ekkert annað við því að gera en að sæta lagi, ráðast í framkvæmdir og búa í haginn fyrir opnun aldarinnar 25. maí.

Viðhaldsframkvæmdir voru orðnar tímabærar fyrir lokun á B5, þannig að þegar öllu var skellt í lás í mars var ráðist í hið nauðsynlega og gott betur. Það væri orðum aukið að segja að menn þar á bæ hafi peppað yfir sig í framkvæmdunum og öllu nákvæmara að benda á hitt, að á staðnum er nú stóraukið svigrúm fyrir góða veislu.

Og góð veisla er einmitt planið: „Það verður eins mikið partí og hægt er til ellefu,“ segir Jónas Óli Jónasson, plötusnúður og meðeigandi, í samtali við mbl.is. B5 opnar eftir langa bið upp úr fimm á mánudaginn og Jónas sjálfur þeytir skífum ásamt starfsbróður sínum Agli Spegli.

Gylltur spegill endurspeglar ástandið hverju sinni.
Gylltur spegill endurspeglar ástandið hverju sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Af hverju ekki að gera þetta að alvöruklúbbi?

Það sem tekur á móti gestum á mánudaginn verður öllu klúbbslegri klúbbur en klúbburinn sem B5 var fyrir heimsfaraldur. Allt er einfaldlega fínna og fágaðra, eins og kemur fram í máli myndanna, sem tala eins og ævinlega sínu máli. Nýir panilar, ný ljós, ný gluggatjöld, ný klæðning, ný hilla fyrir plötusnúðinn og nýr spegill fyrir aftan barinn.

Sé eitthvað eitt tekið út fyrir sviga sem mestu breytir segir Jónas að það séu mögulega gluggatjöldin, sem hleypa minni birtu inn en þau gömlu. Sú nýja birta undirstrikar nefnda klúbbslega eiginleika, enda ærin ástæða til: „Við vitum að B5 er eini klúbburinn á landinu. Af hverju þá ekki bara að gera þetta að alvöruklúbbi með dimmt inni?“ segir Jónas.

Partíið byrjar sem sagt á mánudaginn en ætti að ná nýjum hæðum næstu helgi, sem verður fyrsta helgi í tvo og hálfan mánuð þar sem fólk fær að koma saman á skemmtistað. Frá 25. maí verður 200 manna takmark á samkomum, sem ætti að tryggja skynsamlega en þó þétta umferð um staðinn. Það er kominn tími til.

Ný ljós á dimmum stað.
Ný ljós á dimmum stað. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is