Dulúð og ævintýri

„Við vorum allar smá „misfits“ og kannski þess vegna tengdumst …
„Við vorum allar smá „misfits“ og kannski þess vegna tengdumst við. Við pössuðum ekki alveg inn í hópinn í skólanum. Vorum alltaf pínu skrítnar,“ segja þær Margrét, Laufey og Sólveig sem mynda saman Kæluna Miklu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Matthildur, Margrét Rósa og Laufey Soffía mynda saman hljómsveitina Kæluna Miklu.
Þær spila draumkennda og myrka tónlist og eru að hasla sér völl í Evrópu. Kælan Mikla er rétt að byrja og stefnir hátt.

Unnu ljóðasamkeppni

Upphafið að Kælunni Miklu má rekja til þess að þær stöllur tóku þátt í Ljóðaslammi Borgarbókasafnsins árið 2013.
„Þarna mátti flytja ljóð á opinn máta og við ákváðum að gera tónlistaratriði. Þetta átti ekkert að vera hljómsveit en eitt leiddi af öðru,“ segir Laufey.
„Við sáum auglýsingu á vegg í skólanum en Sólveig var búin að skrá sig en vissi ekkert hvað hún ætlaði að gera. Ég stakk upp á að ég myndi spila á bassa undir. Svo komu allt í einu trommur inn í dæmið og Laufey ákvað að syngja. Við fluttum þetta eina ljóð og unnum keppnina og ætluðum ekkert að gera meira en fólk var alltaf að spyrja okkur hvort við ætluðum ekki að halda áfram,“ segir Margrét.

Ísdrottning úr Múmínálfunum

Settust þið þá bara niður yfir bjórglasi og ákváðuð að stofna hljómsveit?

„Það var nákvæmlega þannig!“ segir Sólveig og þær skellihlæja.
Þá var ekkert eftir nema finna nafn á hljómsveitina og byrja. Þær ákváðu að nota nafnið sem hafði verið á atriðinu í bókasafninu. Þá hafði þeim fundist skondið að nota nafn persónu úr Múmínálfunum.

„Við heyrum hvernig við eldumst og þroskumst með hverri plötu. …
„Við heyrum hvernig við eldumst og þroskumst með hverri plötu. Í dag búum við yfir meiri tilfinningaþroska og tónlistin er dýpri og flóknari,“ segir Margrét. Ljósmynd/Aðsend

„Kælan mikla er ísdrottning sem kemur inn í Múmíndal með veturinn með sér. Hún er með stjörnuhendur og frystir allt; ef þú horfir í augu hennar frýstu í hel,“ segir Sólveig.
„Hún er „femme fatale“ sem ég fíla mikið,“ segir Margrét.
„Hennar persóna varð dóminerandi í okkar framkomu og þeim þemum sem við vinnum með,“ segir Laufey.
„Þetta varð eins konar andi inni í okkur; Kælan Mikla,“ segir Sólveig.
„Okkur finnst þegar við spilum á tónleikum og komum fram þrjár saman að við séum að kalla fram Kæluna Miklu, og svo bjóðum við fólki að stíga inn í þennan heim okkar,“ segir Margrét.
„Kælan Mikla heitir „Lady of the cold“ á ensku og það passar fullkomlega við okkur, þrjár konur frá Íslandi,“ segir Margrét.

Saman í dimmu horni

Voruð þið í upphafi reiðar ungar konur?

„Já, ég var mjög reið,“ segir Margrét og þær hlæja allar.
„Ég var frekar sorgmædd, en líka reið,“ segir Sólveig.
„Þetta var meiri sálarangist; við vorum aldrei neitt reiðar út í kerfið,“ segir Laufey og þær viðurkenna allar að unglingsárin hafi tekið á. Þær segjast allar hafa verið lagðar í einelti á einhverjum tímapunkti í lífinu.
„Við vorum allar smá „misfits“ og kannski þess vegna tengdumst við. Við pössuðum ekki alveg inn í hópinn í skólanum. Við vorum alltaf pínu skrítnar,“ segir Margrét.
„Já, skrítnar og að springa úr tilfinningum,“ segir Sólveig.
„Við sátum á óvinsælasta borðinu í MH, lengst úti í horni, þar sem allir „misfittarnir“ komu saman. Við vorum þarna í dimmu horni þar sem enginn annar vildi vera,“ segir Margrét.

Íslenskan bætir við mystíkina

Eruð þið nokkuð svona reiðar í dag? Eruð þið ekki búnar að jafna ykkur aðeins?
Þær hlæja.
„Jú, ég held það sko. Og það er mjög gaman að heyra hvernig tónlistin hefur breyst í gegnum árin með okkur,“ segir Sólveig.
„Við heyrum hvernig við eldumst og þroskumst með hverri plötu. Í dag búum við yfir meiri tilfinningaþroska og tónlistin er dýpri og flóknari,“ segir Margrét.
Kælan Mikla hefur gefið út þrjár plötur og er langt komin með þá fjórðu. Áður hafa komið út Mánadans, Kælan Mikla og Nótt eftir nótt. Allir textar eru samdir og fluttir á íslensku og hyggjast stelpurnar ekki breyta því.
„Það passar betur. Textarnir eru í raun ljóð og það er mikil hugsun í þeim og þá er miklu auðveldara að semja á sínu eigin tungumáli. Fólk úti í heimi fílar þetta. Ég held að við hefðum ekki náð svona langt ef við hefðum sungið á ensku. Íslenskan bætir við mystíkina,“ segir Laufey.
„Fólk kemur oft til okkar eftir tónleika og segir að það hafi farið að gráta því þótt það hafi ekki skilið orð upplifi það svo miklar tilfinningar,“ segir Margrét.
„Það er mesta hrós sem maður gæti fengið; að fólk skilji okkur án orða. Við getum búið til tónlist sem eru orð og tilfinningar,“ segir Sólveig.
„Þetta er ekki bara tónlist; það er mikill performans. Það er þjáning á sviðinu. Við förum alltaf í mikinn karakter,“ segir Laufey.
„Við tökum þetta alla leið. Við viljum kveikja í öllum skilningarvitunum,“ segir Margrét.

Týndar í Þýskalandi

„Á fyrstu túrunum vorum við bara í lestum,“ segir Sólveig.
„Já, við vorum bara þrjár saman með öll hljóðfærin okkar á bakinu, að hoppa í lestar á milli Þýskalands og Frakklands að mæta á tónleika sem við höfðum bókað sjálfar. Við lentum í því eina nóttina þegar við vorum búnar að ferðast endalaust að við höfðum læst okkur úti af hótelinu okkar. Við þurftum að vaka alla nóttina og ná svo í hljóðfærin, koma okkur ósofnar á lestarstöðina og fara þaðan til Þýskalands. En við tókum vitlausa lest og lentum í öfugum enda Þýskalands. Við fórum til Frankfurt en áttum að fara til Hamborgar. Þetta var hræðilegt,“ segir Margrét.

„Þetta er ekki bara tónlist; það er mikill performans. Það …
„Þetta er ekki bara tónlist; það er mikill performans. Það er þjáning á sviðinu. Við förum alltaf í mikinn karakter,“ segir Laufey sem er hér í miðju. Sólveig er til hægri og Margrét til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum alltaf að fara út á vitlausum stöðum. Stundum opnuðust dyrnar ekki á lestinni. Eitt sinn vorum við týndar í 24 klukkutíma,“ segir Laufey.
„Og við vorum nítján ára,“ segir Sólveig og hristir höfuðið.
„Týndar í Þýskalandi með hljóðfæri,“ segir Margrét og þær hlæja að minningunni.
 

Djammað með söngvara The Cure

Kælan Mikla fékk tölvupóst einn góðan veðurdag árið 2018 frá Robert Smith, söngvara hljómsveitarinnar heimsfrægu The Cure. Þar bað hann þær að hita upp fyrir aðra fræga hljómsveit, Placebo, en Robert Smith var skipuleggjandi tónleikanna.
„Við héldum að þetta væri eitthvert djók. Við vorum þá nýbúnar að taka upp samstarf við bókunarfyrirtækið og trúðum þessu ekki en ákváðum samt sem áður að senda þeim bréfið,“ segir Margrét.

„Þetta var geggjað. Þá líka hittum við hann, héngum með …
„Þetta var geggjað. Þá líka hittum við hann, héngum með honum og djömmuðum með honum. Það var yndislegt,“ segir Laufey og brosir. Hér eru þær stöllur með Robert Smith, söngvara Cure. Ljósmynd/Aðsend

Tölvupósturinn reyndist ekki vera grín.
„Við fengum svo annan póst frá honum viku seinna þar sem hann spurði hvort við vildum líka spila á fjörutíu ára afmælistónleikum Cure,“ segir Sólveig og voru þær ekki lengi að samþykkja það, enda var The Cure í miklu uppáhaldi hjá þeim öllum. Þær höfðu allar séð sveitina sem unglingar á Hróarskeldu og grátið uppi við sviðið yfir goðunum.
„Við spiluðum í Hyde Park í London fyrir framan fimmtíu þúsund manns. Við hituðum upp fyrir Cure, og gerðum það svo aftur í Pasadena í Los Angeles í ágúst í fyrra, en það var fyrsta giggið okkar í Bandaríkjunum,“ segir Margrét.
„Þetta var geggjað. Þá líka hittum við hann, héngum með honum og djömmuðum með honum. Það var yndislegt,“ segir Laufey og brosir.
„Hann er mjög skemmtilegur!“ segir Margrét.

Ítarlegt viðtal við Kæluna Miklu er í Sunnudagsblaði Morgnublaðsins um helgina. Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »