Gul viðvörun undir Eyjafjöllum og væta víðast hvar

Búast má við hvassviðri undir Eyjafjöllum fram eftir degi í …
Búast má við hvassviðri undir Eyjafjöllum fram eftir degi í dag. Gul viðvörun er í gildi þar. mlb.is/Gísli Sigurðsson

Gul viðvörun er nú í gildi samkvæmt Veðurstofunni vegna hvassviðris með hvössum vindhviðum sem geta náð allt að 30 m/s við Eyjafjöll. Gildir viðvörunin til hádegis.

Spáð er allhvassri suðaustanátt og rigningu sunnan- og vestanlands fyrri partinn í dag, en í kringum hádegi snýst svo í hægari sunnanátt með aukinni úrkomu á þessum slóðum. Norðaustantil á landinu verður til að byrja með hægt og bjart veður, en síðdegis gengur í suðaustanátt og 8-15 m/s með dálítilli vætu. Seint í dag og í kvöld dregur úr vindi og styttir upp víðast hvar á landinu. Spáð er 6-15 stiga hita að deginum, hlýjast norðanlands.

Á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir suðaustan 10-15 m/s með rigningu fyrri hluta dagsins, en hægari sunnanátt síðdegis og að það stytti upp. Hiti verður á bilinu 5-10 stig.

Á morgun er spáð sunnan eða suðvestan golu eða kalda, en síðdegis hvessir við suðurströndina. Búast má við talsverðum skúrum víða, einkum við landið sunnan- og vestanvert og að áfram verði milt veður. Spáð er 6-13 stiga hita, hlýjast á Austurlandi.

Á þriðjudag er spáð vestan- og suðvestanátt, 8-13 m/s og skúrum, en 15-20 m/s með suðurströndinni framan af degi. Hiti 5-13 stig, mildast suðaustantil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert