Unglingsstúlkur á sjúkrahús eftir vímuefnahlaupbangsa

Lögreglan bendir á að hægt sé að setja hvaða efni …
Lögreglan bendir á að hægt sé að setja hvaða efni sem er í hlaup sem þetta. mbl.is/Eggert

Tvær unglingsstúlkur á Suðurnesjum voru fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús um helgina eftir neyslu á hlaupböngsum, en í ljós kom að í böngsunum var bæði kannabisefni og morfín. Lögreglan segir mjög auðvelt að gera slíkt hlaup og bendir foreldrum á að ræða hættuna við börn sín.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum kemur fram að tvö mál hafi komið upp um helgina þar sem 13 og 14 ára stúlkur voru fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús, en í fyrstu var talið að um veikindi væri að ræða. Eftir sýnatöku kom í ljós að þær höfðu innbyrt kannabisefni og morfín.

Í ljós kom að þær höfðu báðar verið á sama stað fyrr um kvöldið þar sem þær höfðu fengið sér hlaup frá ungum aðila, sem hafði keypt bangsana frá eldri manni.

Segir lögreglan að mjög auðvelt sé að búa til hlaup og steypa það í hvaða form sem er, hvort sem það eru hlaupbangsar eða eitthvað annað. Verra sé hins vegar að hægt sé að setja hvaða efni sem er í þetta hlaup. „Í þetta er til dæmis hægt að setja alls kyns sterk lyf eins og Contalgin eða Oxycontin og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum ef 13 ára gamalt barn innbyrði slíkt hlaup,“ segir í færslunni.

Lögreglan ræddi við unga manninn sem lét stúlkurnar fá bangsana og segir í færslunni að honum hafi verið brugðið þegar hann áttaði sig á alvarleika málsins. Brýnir lögreglan fyrir foreldrum að ræða við börn sín og fræða þau um þessar hættur sem geti verið á ferð.

mbl.is