Bræðslunni aflýst

Tónlistarhátíðin Bræðslan fer árlega fram í Borgarfirði eystra.
Tónlistarhátíðin Bræðslan fer árlega fram í Borgarfirði eystra. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Þrátt fyrir að neyðarstigi almannavarna sé aflétt í dag og samkomutakmarkanir á undanhaldi telja aðstandendur Bræðslunnar það samfélagslega skyldu þeirra að aflýsa Bræðslunni 2020. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bræðslunnar sem haldin hefur verið í Borgarfirði eystra síðustu 15 ár.

„Með því viljum við afstýra allri mögulegri smithættu sem gæti falist í því að stefna saman fjölda fólks í okkar fögru heimabyggð á Borgarfirði eystra. Við munum mæta aftur sumarið 2021 með bestu Bræðslu allra tíma!

Þrátt fyrir þetta hvetjum við fólk til að heimsækja Borgarfjörð eystra í sumar. Staðurinn bíður upp á frábæra hluti fyrir ferðafólk eins og skipulagðar gönguleiðir um Víknaslóðir og Dyrfjöll sem Álfheimar standa fyrir, fjölda smærri tónleika hjá Já Sæll í Fjarðarborg, veitingar hjá Álfakaffi og Blábjörgum, spa, bestu aðstöðu landsins til að skoða Lunda og svo mætti lengi telja,“ segir á Facebook.

mbl.is