Ekki tímabært að fagna sigri

Síðasti reglulegi fundur almannavarna var haldinn í dag. Þórólfur Guðnason …
Síðasti reglulegi fundur almannavarna var haldinn í dag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að það væri ótímabært að hrósa sigri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að ákveðin lyf komi í veg fyrir alvarleg veikindi eða fækki dauðsföllum vegna COVID-19 er ekki tímabært að tala um byltingu í þeim efnum eða fagna sigri í stríðinu gegn kórónuveirunni.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna.

Hann var spurður að því hvort það væri hægt að líta svo á að sjúkdómurinn væri ekki eins lífshættulegur og hann var í byrjun faraldurs í ljósi þess að búið væri að finna lyf sem virka gegn sjúkdómnum auk þess sem aðgerðir lækna væru orðnar þróaðri.

Lyfin aðallega notuð á veikustu sjúklingana

Þórólfur sagði að þau lyf sem hafi sýnt jákvæða virkni gegn sjúkdómnum virki á afmarkaðan hóp sjúklinga og að þau væru aðallega notuð á veikustu einstaklingana. Það þyrfti að finna lyf sem væri hægt að gefa sjúklingum snemma í ferlinu til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar sjúkdómsins og við værum enn sem komið er langt frá því.

„Þetta lofar góðu en það er allt of snemmt til að fara að fagna sigri,“ sagði hann.

Varðandi þau sex smit sem greinst hafa í maímánuði sagði Þórólfur að þeir einstaklingar sem greinst hafa með sjúkdóminn hafi átt það sameiginlegt að vera lítið veikir.

Það gæti þýtt að þeir væru búnir með mestu veikindin áður en þeir greindust eða jafnvel að einhver þróttur væri að fara úr veirunni. Það væri þó ekki hægt að slá neinu föstu um það og tíminn þyrfti að leiða það í ljós.

mbl.is