Grunaður níðingur leystur frá störfum

mbl.is/Eggert

Karlmaður sem er grunaður um kynferðisbrot gegn tveimur börnum hefur verið leystur frá störfum á frístundaheimili í Hafnarfirði á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hefur fréttastofan heimildir fyrir því að börnin séu á aldrinum sex til sjö ára. Fram kom að maðurinn væri á þrítugsaldri og starfaði í Hraunseli sem er frístundaheimili fyrir börn í Hraunvallaskóla.

Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum, sem er talinn hafa fengið börnin með sér inn á salerni, berað sig þar og látið þau eiga við kynfæri sín.

Fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ, sem mbl.is hefur borist, að málið hafi strax farið í viðeigandi farveg og ferli hjá Hraunvallaskóla og skólayfirvöldum í Hafnarfirði og að það sé litið mjög alvarlegum augum.

Tilkynningin í heild sinni:

„Í síðustu viku kom upp mál í Hraunvallaskóla sem snertir starfsmann skólans og er til rannsóknar hjá lögreglu. Þar sem málið er á rannsóknarstigi er ekki hægt að veita neinar upplýsingar að svo stöddu. Málið fór strax í viðeigandi farveg og ferli innan skólans og hjá skólayfirvöldum í Hafnarfirði og er unnið samkvæmt fyrirfram skilgreindu verklagi í samstarfi við lögregluyfirvöld. Málið er litið mjög alvarlegum augum og hefur viðkomandi starfsmaður verið leystur frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert