Hæstiréttur hækkar bætur í Aserta-máli

Hæstiréttur kvað í morgun upp dóm í einum og líklega …
Hæstiréttur kvað í morgun upp dóm í einum og líklega síðasta anga Aserta-málsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur kvað í morgun upp dóm í einum anga Aserta-málsins svokallaða þegar bótaskylda íslenska ríkisins vegna „ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds“ við rannsókn og saksókn málsins var staðfest. 

Íslenska ríkið var krafið um skaðabætur vegna haldlagningar og kyrrsetningar fjármuna við meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi sem stóð í sex ár. Þá var krafist miskabóta vegna ummæla Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknari og þáverandi yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Refsiheimild ekki til staðar

Ákæra var gefin út í mars árið 2013 gegn fjórum mönnum vegna ætlaðra ólögmætra gjaldeyrisviðskipta þegar fjármagnshöft voru í gildi hér á landi. Fallið var frá hluta ákæruliða undir rekstri málsins þar sem ekki var talið að viðhlítandi refsiheimild væri til staðar.

Fjórmenningarnir voru sýknaðir af öðrum ákæruliðum með dómi héraðsdóms í september árið 2014. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar en ákæruvaldið féll að lokum frá áfrýjuninni í febrúar árið 2016.

Tveir af þeim sem ákærðir voru, Gísli Reynisson og Karl Löve Jóhannsson, höfðuðu bótamál vegna kyrrsetningar á eignum, sem þeir töldu hafa staðið yfir of lengi, og vegna ummæla Helga Magnúsar. Töldu þeir að með ummælunum væri verið að vega að æru þeirra.

Ólíkar niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur í keimlíkum málum

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt í máli Gísla en sýknaði ríkið af kröfum Karls þrátt fyrir að málin væru keimlík. Gísla voru dæmdar 1,4 milljónir króna í bætur.

Báðum málum var áfrýjað til Landsréttar þar sem dómi héraðsdóms í máli Karls var snúið við og honum dæmdar 2,5 milljónir í bætur. Bætur til handa Gísla voru hækkaðar í 2,5 milljónir. Landsréttur hafnaði því þó að ólögmæt meingerð hefði falist í ummælum Helga Magnúsar en fellst á bætur vegna þess hve lengi málið þvældist um í dómskerfinu.

Gísli áfrýjaði dómi Landsréttar til Hæstaréttar sem veitti honum áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að dómurinn gæti haft fordæmisgildi. Sá dómur féll í dag og var niðurstaðan sú að ummæli Helga Magnúsar hefðu ekki vegið að æru Gísla.

Varðandi skaðabótakröfu vegna kyrrsetningar og haldlagningar fjármuna kom fram að þótt skilyrði hefðu verið til að grípa til þeirra aðgerða og tryggingarráðstafana bæri íslenska ríkið eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeim og voru bætur ákveðnar að álitum 600.000 krónur. Koma þær til viðbótar þeim bótum sem Landsréttur hafði dæmt ríkið til að greiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert