Tvíburaþrenna með óvænt tengsl

Klara er tvíburi og tók á móti tvíburum Rakelar í …
Klara er tvíburi og tók á móti tvíburum Rakelar í mars, en Rakel er einnig tvíburi. Hér má sjá tvíburaþrennuna koma saman, f.v. Sara, Klara, Rakel og Rebekka með nýju tvíburana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá því ljósmóðurnemi tók á móti mínu fyrsta barni þegar ég var átján ára hefur það verið draumur minn að vinna við að taka á móti börnum. Á þeirri stundu varð ég ákveðin í að einn góðan verðurdag yrði ég sjálf ljósmóðir,“ segir Klara Jenný Húnfjörð Arnbjörnsdóttir sem lýkur ljósmóðurnámi sínu í næstu viku.

„Þetta hefur tekið sinn tíma, að ná markmiðinu, það eru tíu ár frá því ég lauk hjúkrunarfræðinámi, sem er skilyrði fyrir því að komast í sérnám í ljósmóðurfræðum. Ég er að norðan og ílengdist þar, en þegar ég flutti suður fyrir þremur árum skellti ég mér loks í þetta sérnám,“ segir Klara, sem er eineggja tvíburi og lenti í þeirri sjaldgæfu og skemmtilegu tilviljun í náminu að taka á móti eineggja tvíburum hjá konu sem sjálf er tvíburi.

„Ekki nóg með það, heldur kynntist ég hinni fæðandi móður, Rakel Pálsdóttur, á barnsaldri í leikskóla á Blönduósi. Við fjórar lékum okkur rosamikið saman allar fjórar, ég, Sara systir og Rakel og Rebekka tvíburasystir hennar. Við eigum minningar um mörg sameiginleg prakkarastrik,“ segir Klara og hlær.

Gömul vináttutengsl vakna

„Þetta er dásamleg tilviljun að við vorum leiddar saman. Ég fór í verknám í áhættumæðravernd og fékk að fylgja þar þeirri einu tvíburaljósmóður sem nú starfar á Íslandi, Ingibjörgu Eiríksdóttur. Ég varð svo hrifin af öllu sem tengist tvíburameðgöngum og fæðingum að ég ákveð að einbeita mér að því í lokaverkefni mínu. Einnig átti ég í námi mínu að sinna konu í áhættumæðravernd í svokölluðu MFS-verkefni sem felur í sér samfellu þar sem ég sinni konu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Helsta ósk mín var að finna konu sem gengi með tvíbura, því eineggja tvíburameðganga er jú áhættumeðganga. Mér var þá bent á konu sem væri barnshafandi að eineggja tvíburum og þegar ég ætlaði að hafa samband við hana og sá nafnið hennar áttaði ég mig á að þetta var hún Rakel, vinkonan frá því ég var lítil stelpa, tvíburinn í leikskólanum. Við höfum ekki verið í samskiptum árum saman, því fjölskylda mín flutti frá Blönduósi þegar ég var sex ára.“

Klara segir að við þessa samvinnu í verkefninu hafi aftur vaknað hin gömlu tengsl á milli hennar og Rakelar.

„Ég fór með henni í nánast hverja einustu mæðraskoðun og fylgdi henni í eina sónarskoðun líka. Ég tók á móti tvíburunum hennar í fæðingu og sá um hana í heimaþjónustu eftir fæðingu, enda er þetta verkefni sem á að sýna samfellu í þjónustu. Í lokaritgerðinni minni fjalla ég svo um reynslu kvenna af tvíburaþungun, með áherslu á sálræna líðan og stuðning ljósmæðra, en í tvíburameðgöngu er aukin hætta á flestöllum fylgikvillum, bæði sálrænum og líkamlegum.“

Ég gat ekki hamið tárin

Þegar Klara er spurð hvernig tilfinningin hafi verið þegar hún tók á móti tvíburum Rakelar segir hún það hafa verið stórkostlegt. Stúlkurnar tvær voru ekki teknar með keisara heldur fæddi Rakel þær.

„Fyrst þegar ég byrjaði í ljósmóðurnáminu grét ég í hverri einustu fæðingu sem ég fékk að fylgjast með. Þegar ég var komin vel á veg og farin að taka sjálf á móti börnum var ég meira að einbeita mér svo það var minna pláss fyrir tilfinningasemi. Fæðing er alltaf jafn falleg, yndisleg og krefjandi, en ég sem ljósmóðir hef nóg að gera strax að fæðingu lokinni, fylgjast með að fylgjan komi, hvort það sé blæðing og fleira. En í fæðingu tvíburastelpnanna hjá Rakel gat ég ekki hamið tárin. Þegar ég hafði tekið á móti litlu stúlkunum og þær voru komnar í fangið á mömmu sinni brast ég í grát. Ég fann flæða yfir mig alls konar tilfinningar af því ég er sjálf tvíburi. Ég veit að það er mikil vinna og fyrirhöfn að ganga með og fæða tvíbura. Það er afrek. Þar fyrir utan var ég líka með pressu á mér að standa mig sem allra best, því þetta er jú vinkona mín. Þetta var afar dýrmætt fyrir okkur báðar og allt þetta meðgönguferli bjó til alveg nýjan vinskap okkar á milli.“

Klara (ljóshærð) og Rakel halda hér á tveggja mánaða tvíburadætrum …
Klara (ljóshærð) og Rakel halda hér á tveggja mánaða tvíburadætrum Rakelar sem Klara tók á móti. Við hlið Klöru er Sara tvíburasystir hennar og við hlið Rakelar er Rebekka tvíburasystir hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vitum þegar hinni líður illa

Klara er sjálf þriggja barna móðir en á ekki tvíbura.

„Eineggja er hálfgert kraftaverk. Reyndar halda sumir því fram að við Sara séum tvíeggja, af því við komum í tveimur fylgjum, en eineggja geta líka fæðst í tveimur fylgjum. Mamma lét aldrei tékka á því hvort við værum eineggja en við erum alveg nákvæmlega eins svo það er ekki vafi á því. Við þekkjum okkur ekki sjálfar í sundur á myndum fyrr en eftir tíu ára aldur,“ segir Klara og hlær. Hún segir það hafa verið mikinn stuðning í uppvextinum að eiga tvíburasystur.

„Við höfum alltaf verið bestu vinkonur systurnar og það var gott að hafa alltaf hinn helminginn til staðar. Í uppvextinum kveið ég aldrei fyrir neinum breytingum af því ég vissi alltaf að ég hefði Söru með mér, að við fylgdumst að,“ segir Klara og bætir við að þær hafi flutt mjög oft þegar þær voru litlar, bjuggu á Blönduósi, Ólafsfirði og Dalvík.

„Ég varð eftir á Akureyri þegar Sara flutti suður með foreldrum okkar þegar við vorum 18 ára og við bjuggum þá í 13 ár hvor í sínum landshluta. Ég skil ekki enn hvernig við fórum að því,“ segir Klara og hlær.

„Nú búum við í sama hverfi í Reykjavík og við heyrumst á hverjum degi og hittumst mjög reglulega. Við erum mjög tengdar og þannig hefur það alltaf verið, við finnum oft á okkur ef hinni líður illa þótt við séum ekki saman. Við eigum margar slíkar sögur, til dæmis þegar ég var 14 ára að keppa á Ísafirði á skíðum og fótbrotnaði. Sara var allan daginn grátandi í mömmu heima á Dalvík og sagði að sér liði illa og vissi ekkert af hverju. Þegar þau fengu loks símhringingu um að ég væri fótbrotin kom skýringin í ljós. Þannig er þetta enn þann dag í dag; við skiljum hvor aðra rosalega vel, sem getur verið pressa á makana, þeir skilja okkur aldrei eins vel og við hvor aðra,“ segir Klara og hlær.

„Þessi tengsl eru í raun stórfurðuleg, og falleg. Ég hef ekki séð neina galla við það að vera tvíburi, mér finnst gott að vera þannig hluti af annarri manneskju.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert