Varðhald fellt niður yfir grunuðum barnaníðingi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa brotið gegn tveimur börnum. Er maðurinn talinn hafa fengið börnin með sér inn á salerni og þar berað sig og látið börnin eiga við kynfæri sín.

Í úrskurði Landsréttar, sem er frá því á föstudaginn, kemur fram að lögreglan hafi tekið skýrslu af manninum sem og framkvæmt húsleit á heimili hans og lagt hald á muni í hans eigu, svo sem fartölvu og farsíma. Verði því ekki talið að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann sæti varðhaldi áfram.

Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í varðhald af Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudaginn og átti hann að vera í varðhaldi til föstudagsins 28. maí.

Fram kemur í varðhaldsúrskurði héraðsdóms að lögreglan hafi fengið tilkynningu frá bráðamóttöku barnaspítala Hringsins um hugsanlegt kynferðisbrot mannsins gegn einu barni. Við nánari rannsókn hafi komið í ljós að börnin hafi verið tvö. Fram kemur að maðurinn hafi sagt börnunum eftir á að þau mættu ekki segja neinum frá, annars yrði hann „rauður og reiður“.

Telur lögreglan að rökstuddur grunur sé fyrir brotum mannsins, en rannsókn málsins sé á frumstigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert