Fær bætur eftir slys þrátt fyrir ölvun og neyslu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku að tryggingafélagið Sjóvá ætti að viðurkenna bótaskyldu að einum þriðja hluta í tilviki ungs karlmanns sem keyrði ölvaður og undir áhrifum kókaíns og amfetamíns á götusóp árið 2017. Var áreksturinn mjög harður og slasaðist maðurinn talsvert, en slysið átti sér stað um morgun á Bæjarhálsi í Árbæ.

Gaf hann þær skýringar að vinur hans, sem hann vildi aldrei nefna, hefði keyrt bílinn, en sjálfur hefði hann verið farþegi. Ökumaður götusópsins, sem slapp nokkuð vel úr slysinu, sagðist hins vegar hafa komið að manninum í sæti bifreiðarinnar þar sem hann var rænulítill og alblóðugur. Hann hafi svo náð sambandi við hann og komið honum út úr bílnum.

Sagði vin sinn hafa keyrt bílinn og að hann hefði kastast yfir í ökumannssætið

Fljótlega eftir það fór maðurinn að segja að vinur hans hefði keyrt bílinn. Lögregla sem kom á vettvang taldi hins vegar að bíllinn væri svo mikið skemmdur hægra megin að hefði farþegi verið þar hefði hann slasast miklu meira og líklega hefði hann verið fastur í bílnum. Dómurinn taldi því allar skýringar mannsins um að annar aðili hefði keyrt bílinn úr lausu lofti gripnar og að honum hefði ekki tekist að sanna að annar maður hefði ekið bílnum, hvað þá að hann hefði kastast í ökumannssætið við áreksturinn, eins og hann hélt fram.

Tryggingafélagið synjaði manninum um bætur vegna slyssins, meðal annars á þeim forsendum að um stórkostlegt gáleysi væri að ræða af hans hálfu, en slíkt getur fellt niður bótaskyldu tryggingafélaga.

„Maður með lágmarksathygli hefði því átt að veita sópnum athygli

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hafna bæri kröfu mannsins um bætur úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar þar sem sýnt þætti að hann hefði ekið bifreiðinni af stórkostlegu gáleysi á vegsópinn. „Þetta var árla morguns og lítið farið að birta af degi. Götusópurinn var hins vegar gulmálaður og ók löturhægt með blikkandi ljósum, meðal annars tveimur á þaki og tveimur á afturhlutanum. Maður með lágmarksathygli hefði því átt að veita sópnum athygli í tæka tíð. Jeppabifreiðinni var því, hvað sem öðru líður, ekið óvarlega og ekki í samræmi við aðstæður. Þar fyrir utan var stefnandi ekki í bílbelti við aksturinn,“ segir í dóminum.

Sjóvá var dæmt til að viðurkenna bótaskyldu í málinu.
Sjóvá var dæmt til að viðurkenna bótaskyldu í málinu.

Þetta kemur til viðbótar við ákvörðun mannsins að aka af stað þótt hann væri með 1,46 prómill af vínanda í blóði og 20 ng/ml af amfetamíni og 45 ng/ml af kókaíni hefðu fundist í blóðsýni hans.

Hefur snúið við blaðinu og taldi það ástæðu til að halda bótarétti

Í varakröfu sinni fór maðurinn fram á bætur úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns og vísaði meðal annars til þess að samkvæmt dómaframkvæmd beri ekki að líta svo á að áfengisneysla á slysastundu valdi því ein og sér að háttsemi tjónþola teljist stórkostlegt gáleysi. Þá sé mat á stórkostlegu gáleysi ekki eins strangt í persónutryggingum og í skaðatryggingum. Maðurinn byggir líka á því að hann hafi verið ungur þegar slysið varð, um tvítugt, og að varanlegar afleiðingar slyssins geti haft veruleg áhrif til frambúðar, skert lífsgæði og takmarkað möguleika hans á vinnumarkaði. Auk þess vísar hann til þess að hann hafi á þessum tíma misst öll tök á lífinu og verið í mikilli neyslu, en hafi síðan þá tekið sig á og hafi undanfarið verið edrú og sé kominn í nám.

Dómurinn segir að aldur mannsins hafi enga þýðingu í málinu, hann hafi verið fullorðinn maður, enda á tuttugasta og fyrsta aldursári þegar slysið varð. Þá telur dómurinn að skuldir mannsins, sem sagðist hafa „maxað öll smálán og verið kominn með einnar milljónar króna yfirdrátt“ þegar hann sneri við blaðinu, hafi heldur ekki þýðingu. Dómurinn telur jafnframt að óljóst sé að hvaða leyti líkamstjón mannsins verði að því marki að það skerði lífsgæði hans.

Litið til atvika eftir slysið 

Hins vegar bendir dómurinn á að í lögum um persónutryggingar sé ekki tilgreint hvort þau atvik sem líta beri til séu alfarið bundin við slysstundu eða hvort líta megi til þess sem síðar kann að gerast, svo sem þess að tjónvaldur hafi látið afleiðingar gerða sinna sér að kenningu verða. „Dómurinn telur að líta megi til þess að stefnandi tók sig að lokum á og breytti líferni sínu,“ segir í dóminum og vísað er til þess að hann hafi farið í nám og fengið vinnu þar sem hann hafi unnið sig upp í ábyrgð.

„Dómurinn dregur ekki úr því að háttsemi stefnanda var stórhættuleg og ljóst að mun verra líkamstjón og jafnvel mannslát hefði getað hlotist af henni. Engu að síður telur dómurinn að líta verði svo á að atvikið hafi orðið á skammvinnu tímabili þegar stefnandi hafði algerlega misst tökin á lífi sínu, en nú hafi hann tekið sig verulega á og sýnt að hann hafi sagt skilið við fyrra líferni.“

Er niðurstaða dómsins því að lækka beri bætur stefnanda um tvo þriðju hluta, en að hann eigi rétt á einum þriðja hluta úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns.

Dómur héraðsdóms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert