Réttindi barna best tryggð á Íslandi

mbl.is/Hari

Réttindi barna eru hvergi í heiminum betur tryggð en á Íslandi samkvæmt KidsRights index, sem er mælikvarði á það hvernig aðildarríki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna virða réttindi barna. Frjálsu félagasamtökin KidsRights birta stuðulinn árlega. Þetta er annað árið í röð sem Ísland skipar efsta sæti listans.

AFP

Tjad, Afganistan og Síerra Leóne skipa þrjú neðstu sæti listans en Sviss og Finnland koma á eftir Íslandi í þremur efstu sætum listans.

KidsRights eru alþjóðleg samtök sem hafa það að markmiði að stuðla að velferð barna um allan heim og vinna að því að réttindi þeirra séu virt. Árið 2018 var Ísland í öðru sæti á eftir Noregi en árið 2017 var Ísland í fjórða sæti.

AFP

Stuðullinn byggist á tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til aðildarríkja Barnasáttmálans, upplýsingum frá UNICEF og UNEP. Þá byggjast niðurstöðurnar á 20 mælikvörðum um líf, heilsu, vernd, menntun og umhverfi réttinda barna.

Samtökin hafa miklar áhyggjur af velferð barna í heiminum á tímum kórónuveirunnar. Marc Dullaert, starfandi stjórnarformaður KidsRights, segir að ríki heims séu alls ekki að gæta nægjanlega að hag barna og réttindum þeirra. Með þeim efnahagslegu afleiðingum sem fylgja kórónuveirunni er ólíklegt að réttindi barna, svo sem á menntun og að búa við öryggi, batni á næstunni. 

AFP

Efnahagsþrengingar af völdum veirunnar verði til þess að framfarir síðustu ára þurrkist út og því er mikilvægt að vel sé fylgst með og mikið eftirlit sé með réttindum barna. Aftur á móti geti það reynst þrautin þyngri á sama tíma og stjórnvöld glíma við að halda heilbrigðis- og hagkerfum gangandi vegna farsóttarinnar.

Dullaert varar við afleiðingunum. Til að mynda hafi lokun skóla í 188 löndum áhrif á einn og hálfan milljarð barna og þau gerð varnarlausari þegar kemur að barnaþrælkun, barnahjónaböndum og þungunum stúlkna á unglingsaldri. Eins bitnar heimilisofbeldi, sem hefur aukist á tímum farsóttarinnar og útgöngubanns vegna hennar, illa á börnum, ekki síst stúlkum. 

AFP

Gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfin þýðir að hefðbundnar bólusetningar fyrir sjúkdómum eins og bólusótt og mislingum liggja niðri. Það muni valda mikilli fjölgun dauðsfalla meðal ungra barna. Nú þegar hafa mislingabólusetningar í að minnsta kosti 23 löndum áhrif á rúmlega 78 milljónir barna yngri en níu ára að því er segir í fréttatilkynningu frá KidsRights. 

Líkt og fram kom hjá UNICEF nýverið kalla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), UNICEF og Gavi, bólusetningarbandalagið sem stofnað var af Bill og Melindu Gates, eftir átaki í þessum efnum svo bjarga megi lífum. Ákallið kemur í aðdraganda Alþjóðlegu bólusetningarráðstefnunnar (e. Global Vaccine Summit) sem hefst 4. júní þar sem þjóðarleiðtogar munu ráða ráðum sínum í þessum efnum.

AFP

Samkvæmt gögnum sem WHO, UNICEF, Gaci og Sabin Vaccine Institute tóku saman hafa hefðbundnar bólusetningar barna dregist verulega saman í að minnsta kosti 68 ríkjum vegna ástandsins og áætlað að það muni hafa áhrif á 80 milljónir barna á fyrsta ári.

„Rask á bólusetningarverkefnum vegna COVID-19-heimsfaraldursins ógnar framförum og vinnu síðustu áratuga við að vinna á sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, í sameiginlegri tilkynningu stofnananna. „Þann 4. júní munu styrktaraðilar veita Gavi– bólusetningarbandalaginu stuðning sinn til að viðhalda og bjarga lífi fólk í viðkvæmustu þjóðunum. Ég hvet styrktaraðila til að fjármagna bandalagið. Þessar þjóðir, þessi börn sérstaklega, þurfa bóluefni og þau þurfa á Gavi að halda,“ segir Ghebreyesus.

Bólusetningar liggja víða niðri vegna kórónuveirunnar.
Bólusetningar liggja víða niðri vegna kórónuveirunnar. UNICEF

„Aldrei í sögunni hafa fleiri börn í fleiri löndum verið varin fyrir sjúkdómum en nú,“ segir Seth Berkley, forstjóri Gavi. „En vegna COVID-19 er þessi árangur í hættu. Við horfum fram á hættuna að mislingar og mænusótt brjótist út að nýju. Með því að viðhalda bólusetningaráformum munum við ekki aðeins fyrirbyggja slíkan faraldur heldur tryggja þá innviði sem við munum þurfa á að halda þegar bóluefni við COVID-19 verður tilbúið.“

„Við megum ekki láta baráttu okkar við einn sjúkdóm koma niður á langtímabaráttu okkar við aðra,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Aðstæður hafa kallað á hlé á aðgerðum en við verðum að hefja þær að nýju eins fljótt og auðið er ef við viljum ekki að annar faraldur taki við af þessum og koll af kolli,“ segir Fore.

AFP

Jafnframt hafa Sameinuðu þjóðirnar áætlað að 42-66 milljónir barna geti endað í sárri fátækt af völdum farsóttarinnar samkvæmt upplýsingum frá KidsRight.

Ástralía hrapar niður á lista KidsRight á milli ára, fer úr 19. sæti í 135. Ástæðan er hvernig farið er með fólk á flótta og mismunun í garð frumbyggja. Eins er Bretland í 169. sæti listans og ástæðan er einkum sú mismunun sem róma- og sígaunabörn verða fyrir í landinu. 

AFP

Aftur á móti hækkar Ítalía á listanum vegna umbóta sem farið hefur verið í víða í landinu. Aftur á móti dregur það Ítalíu niður hvernig stjórnvöld hafa beitt sér gegn hjálparsamtökum sem leita og reyna að bjarga flóttafólki, þar á meðal börnum í Miðjarðarhafi. 

Eins hafa samtökin miklar áhyggjur af mismunun í garð stúlkna í heiminum. Í 91 af þeim 182 löndum sem taka þátt í rannsókninni búa stúlkur við minni réttindi en drengir. Í nokkrum þeirra hafa stúlkur ekki sama erfðarétt og drengir og eiga minni möguleika á menntun og réttindum í lögum ríkja.

Nánar um lista KidsRight

Írakar í ungverskum búðum skammt frá landamærum Slóvakíu.
Írakar í ungverskum búðum skammt frá landamærum Slóvakíu. AFP
Frá búðum fyrir flóttafólk í ungverska þorpinu Vamosszabadi skammt frá …
Frá búðum fyrir flóttafólk í ungverska þorpinu Vamosszabadi skammt frá landamærum Slóvakíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina